Heimsþingi kvenleiðtoga, sem haldið er í Hörpu með fjarfundarbúnaði, lýkur á morgun. Á sjöunda hundrað manns hafa talað á þinginu, þar á meðal Hillary Clinton, Melinda Gates og Erna Solberg. Hin þýska Silvana Koch-Mehrin, stofnandi Samtaka þingkvenna, sem setti þingið ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi ráðherra, segir að heimsfaraldurinn hafi vitaskuld verið helsta umræðuefnið. „Við verðum þó að muna að aðrir hlutir séu að gerast á þessu ári sem ekki má gleyma,“ segir hún.

Silvana bendir á að rannsóknir sýni að löndum, þar sem konur eru við stjórnvölinn, hafi gengið betur að takast á við faraldurinn. Þetta sé hugsanlega falið í því að konur séu viljugri til samstarfs við aðra. Aðeins 7 prósent landa séu þó með kvenleiðtoga.

„Faraldurinn hefur meiri áhrif á konur en menn,“ segir Silvana. „Kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi hefur rokið upp, sér í lagi þegar þurft hefur að setja á útgöngubann. Heilbrigðiskerfin starfa á brúninni sem hefur valdið hárri dánartíðni hjá barnshafandi konum og ungbörnum og konur missa störf sín í meira mæli en karlar þar sem þær eru frekar í þjónustustörfum.“

Aðspurð um fjölgun kvenna í leiðtogastöðum segir Silvana hana hafa verið mjög hæga á undanförnum árum. Með sama áframhaldi taki það 200 ár að ná jöfnu hlutfalli á þjóðþingum.

Ein af ástæðunum fyrir þessum hægagangi sé uppgangur popúlisma í heiminum. Sem sést hefur meðal annars í Bandaríkjunum undir Trump, Brasilíu Bolsonaro, Filippseyjum Duterte og víða í Austur-Evrópu. „Í popúlisma ríkir hugmyndafræði hins sterka karlmanns,“ segir Silvana. „Að svona eigi leiðtogi að líta út. Popúlismi byggir á að sigta út ákveðinn hóp fólks og minnka réttindi hans. Þar sem fjölbreytileikanum er hafnað óttast konur að missa þau réttindi sem þær hafa öðlast.“

Má nefna nýlegan dóm í Póllandi um skerðingu á réttinum til þungunarrofs. Silvana segir að sums staðar sé eignarréttur kvenna og giftingarfrelsi í hættu.

Annað sem skeði nýlega var kjör Kamölu Harris sem varaforseta Bandaríkjanna. Silvana segir þetta sögulegan viðburð. „Við höfum lengi sagt að þú geti orðið það sem þú sérð. Að hafa hana í þessu embætti, sýnilega um allan heiminn, mun breyta orðræðunni um hvernig leiðtogi á að líta út,“ segir hún.
Silvana segir fyrirmyndir afar mikilvægar til að fá ungar konur til að velja stjórnmál sem framtíðar starfsvettvang. Nefnir Ísland og Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta í því samhengi. Einnig skipti aðstæðurnar miklu máli, hvort ákvarðanir séu gagnsæjar eða teknar í reykfylltum bakherbergum.

Aðspurð um kynjakvóta, til dæmis á þjóðþingum, segist Silvana vera fylgjandi þeim. „Tilgangurinn helgar meðalið. Það væri þó frábært að þurfa ekki að setja kynjakvóta á,“ segir hún. Þetta sé hins vegar umdeilt mál og ekki á stefnuskrá þingsins.

Hægt er að horfa á dagskrá dagsins í dag, sem og gærdagsins, hér fyrir neðan.