Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að þróun faraldursins hér á landi væri á niðurleið.

„Við erum að sjá faraldurinn ganga hægt og bítandi niður og ég held að ég geti sagt að það sé bein afleiðing af þeim aðgerðum sem gripið var til fyrir rúmum tveimur vikum síðan. Það ber þá náttúrlega sérstaklega þakka góðri þátttöku almennings í þessum aðgerðum og þeim einstaklingsbundnu sóttvörnum sem við höfum sífellt verið að predika."

Ísland er eitt fjögurra landa í Evrópu þar sem tíðni daglegra smita og meðaltal síðustu sjö daga þar fer minnkandi. Faraldurinn er í uppsveiflu allsstaðar annars staðar í Evrópu.

Margir greinst jákvæðir á landamærunum

Undanfarið hafa óvenjumargir farþegar greinst með Covid-19 á landamærunum. Þórólfur segir þetta undirstrika mikilvægi skimunar á landamærum.

„Þetta eru farþegar sem eru að koma frá Póllandi og hafa greinst annað hvort í skimun á landamærum eða seinni sýnatöku. Þetta endurspeglar vafalaust mikla aukningu á Covid-19 í Póllandi og gefur einnig til kynna að hlutfall einstaklinga með Covid-19 sem eru að koma hingað frá öðrum löndum eigi eftir að hækka þar sem faraldurinn er í mikilli uppsveiflu í flestum löndum, allavega í Evrópu. Þetta undirstrikar að mínu mati mikilvægi skimunar á landamærum."

Sigurinn er hvergi nærri í höfn

Þá segir Þórólfur að þó við getum hrósað happi eins og staðan er núna þá er sigurinn hvergi nærri í höfn. „Við þurfum að halda áfram okkar samvinnu og samstöðu þannig að hægt verði á næstunni að létta á ýmsum íþyngjandi aðgerðum sem nú eru í gangi. Þetta er langhlaup eins og við höfum sagt margoft áður og það er ljóst að það þarf lítið út af bregða til að við fáum bakslag í faraldurinn hér innanlands."

Í gær greindust 33 einstaklingar innanlands, 61 prósent var í sóttkví við greiningu. Í gær voru tekin um 2.300 sýni og því greinilegt að smitum fer fækkandi.

„Sú þróun sem við höfum verið að sjá undanfarna daga, að kúrfan er að fara niður heldur því áfram," segir Þórólfur.

21 sjúklingur er inniliggjandi með Covid-19 og fækkar þeim um tvo á milli daga, þar af þrír á gjörgæslu og tveir í öndunarvél.