Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að samansafn hópsmita beri uppi þann fjölda tilfella sem greinst hafi síðustu daga. Hann segir stöðu faraldursins vera ágæta hér á landi og ljóst að hann sé ekki kominn í veldisvöxt.

Átján einstaklingar greindust með Covid-19 síðastliðinn sólarhring og þar af voru sjö utan sóttkvíar við greiningu.

„Það er ekkert voðalega mikil aukning í þeim sem eru að greinast utan sóttkvíar, það er nú það sem við horfum einna helst á, svo staðan er kannski ágæt eða allavega þokkaleg. Þetta er ekki að fara í neinn veldisvöxt,“ segir Þórólfur í samtali við Fréttablaðið.

Færri sýni tekin um helgina

Yfir tvöfallt fleiri tilfelli greindust í gær en á sunnudag en að sögn Þórólfs skýrir minni sýnataka um helgar sveifluna að hluta til.

„Ég var náttúrulega kannski hræddur um að þetta væri að fara í veldisvöxt og að þetta væri meiri útbreiðsla en maður getur sagt að þetta er áfram í línulegum vexti, við erum nokkurn veginn með sama fjölda á hverjum degi og við vitum hvaða hópsýkingar þetta eru.“

Þar nefnir Þórólfur til að mynda klasasmit á leikskóla fyrir utan Reykjavík, sýkingar sem hafi komið upp á vinnustöðum, innan fjölskyldna og í öðrum hópum innan höfuðborgarsvæðisins.

„Það liggur nokkuð ljóst fyrir hvaðan þessi smit eru að koma.“

Óbreyttar takmarkanir

Mikið hefur verið spáð í framhald sóttvarnatakmarkana undanfarna daga en Þórólfur sagði fyrir helgi að hann ætlaði að endurskoða tillögur sínar í ljósi fjölgunar smita.

Heilbrigðisráðherra hefur nú gefið út að núgildandi sóttvarnaráðstafanir verði framlengdar til 9. desember næstkomandi en þær áttu að óbreyttu að renna út í dag.

Munu meginfjöldatakmörk því áfram miðast við tíu manns líkt og verið hefur. Að sögn ráðherra er framlenging aðgerða í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

Í gær gáfu sóttvarnayfirvöld út ný tilmæli um það hvernig fólk skyldi bera í huga í kringum hátíðirnar. Meginskilaboðin í þeim eru að fólk takmarki hópamyndun og takmarki sig við lítinn hóp jólavina eins og það er orðað í tilmælunum.

Þórólfur segir mikilvægt að fólk hafi sóttvarnir í huga yfir jólahátíðina og fari farlega.

„Ég held að fólk eigi bara að búa sig undir það að reyna að hafa jólahátíðina þannig að fólk sé að hópast saman sem minnst, hafa hópana sem minnsta og vera ekki að stofna til margra hópa þar sem fólk er kannski að fara í mörg lítil jólaboð sama daginn. Ég held að fólk eigi bara að passa sig á því.“