Hægri popúlistinn Nigel Farage hótar nú endurkomu í bresk stjórnmál og að hann muni gera út af við Íhaldsflokkinn. Helsta ástæðan fyrir þessu eru áætlanir bresku ríkisstjórnarinnar að reyna að gera samning við Evrópusambandið um „svissneskt samkomulag“.

Farage, sem áður leiddi flokkana UKIP og Brexit-flokkinn, telur að slíkir samningar væru svik við þá sem kusu með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu árið 2016. Eftir að fréttir um þessar áætlanir birtust lét Farage í sér heyra á samfélagsmiðlum, kallaði Rishi Sunak forsætisráðherra „Goldman Sachs glóbalista“ og að það yrði að „kremja Íhaldsflokkinn fyrir þessi svik“.

Bresk stjórnvöld sjá fram á langa efnahagskreppu, vegna orkukreppunnar, afleiðinga faraldursins og ekki síst vandamála tengdum útgöngunni úr Evrópusambandinu. Er ríkur vilji innan stjórnarinnar til þess að milda það högg og komast betur inn á samevrópska markaði.

Ólíklegt er hins vegar að Evrópusambandið myndi samþykkja „svissneska leið“ fyrir Bretland. Sambandið er nú þegar óánægt með fyrirkomulagið og telur Sviss fá of mikinn aðgang að innri markaðinum án þess að greiða nógu mikið fyrir það. Hefur Evrópusambandið nýlega hótað Svisslendingum undir rós að samningunum yrði slitið.

Íhaldsmenn hafa miklar áhyggjur af hugsanlegri endurkomu Farage, en hann myndi án nokkurs vafa taka stóran hluta kjósenda flokksins til sín í næstu kosningum, árið 2024. Kannanir hafa sjaldan litið jafn illa út fyrir Íhaldsflokkinn því Verkamannaflokkurinn leiðir með um það bil 25 prósenta mun.

Vegna einmenningskosningakerfisins í Bretlandi gæti farið svo að nýr flokkur Farage myndi kljúfa hægra fylgið það mikið að Íhaldsflokkurinn myndi jafnvel ekki ná 100 þingsætum. Farage væri hins vegar ekki sá sem myndi græða á klofningnum, heldur Verkamannaflokkurinn.