Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að hann muni hitta formenn hinna ríkisstjórnarflokkanna í dag. Þau þurfi að ræða málefnin áður en þau skipti með sér hlutverkum. Hann telur ólíklegt að endurtalning eða endurkosning í einu kjördæmi hafi afgerandi áhrif á niðurstöðuna þegar meirihluti ríkisstjórnarinnar er svo sterkur.
„Það er gaman að sjá nýja þingmenn og hittast í fyrsta skipti. Við höfum verið úti í kjördæmunum að heyja baráttuna og nú náðum við að hittast í fyrsta skipti,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á leið sinni úr þinghúsinu um hádegisbil en þar hafði hann verið til að funda með þingflokki sínum.
Hann sagði að það hefði verið létt yfir fólki á fundinum. Spurður hvort að formenn þriggja stjórnarflokkanna hefðu hist í dag sagði hann að þau myndu hittast í dag.
„Mér líst vel á þessa stöðu. Við erum þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið,“ sagði Bjarni og sagði að flokkurinn væri með mesta fjölda þingmanna eins og áður en að því væri ekki neitað að þau vildu bæta við sig.
„Nú er þessi niðurstaða fengin og við vinnum með hana,“ sagði Bjarni. Hann sagði að það væru margar áskoranir en það væru líka mörg tækifæri fyrir okkur sem þjóð.
Ólíklegt að endurtalning breyti niðurstöðu kosninganna
Spurður hvort að hann vildi Katrínu áfram í forsætisráðherrastólinn sagði Bjarni að hann hafi sagt áður að það væri eðlilegt að flokkarnir setjist niður til að tala saman.
„Katrín hefur unnið sína vinnu vel mjög og stýrt ríkisstjórninni tryggri hendi og ég held að það sjái það ekki allir dagsdaglega en hún hefur lagt ofboðslega mikið á sig. Hún er vinnusöm og nákvæm og á mikið hrós skilið hvernig hún hefur stýrt stjórninni,“ sagði Bjarni en að nú væri nýtt upphaf og nýjar kosningar.
Hann sagði að málefnalega þurfi þau að ræða saman og sagði að það væri ekkert launungarmál að það væru mál sem væru þeim erfið. Ef að það væri hægt að greiða úr þeim væri hægt að ræða hlutverkaskipti.
Hvað varðar endurtalningu atkvæða sagði Bjarni það óheppilegt og sagði að það þyrfti að finna góða lausn á því en vildi ekki mikið tjá sig um það.
Katrín hefur unnið sína vinnu vel mjög og stýrt ríkisstjórninni tryggri hendi og ég held að það sjái það ekki allir dagsdaglega en hún hefur lagt ofboðslega mikið á sig
Spurður hvort það væri hægt að fara í stjórnarmyndunarviðræður á meðan þessari óvissu stendur sagði Bjarni að hann þyrfti að átta sig betur á því hvað væri undir í þessari stöðu.
„Að því gefnu að við séum að tala um endurtalningu eða eftir atvikum, eins og ég hef heyrt, mögulega endurkosningu í einu kjördæmi þá finnst mér ólíklegt í ljósi niðurstöðu kosninganna að við munum sjá slíka sveiflu að það fari að riðla þessum meirihluta því hann er svo gríðarlega sterkur fyrir,“ sagði Bjarni að lokum.