Rýmingu hefur nú verið af­létt á svæðinu undir Múlanum á Seyðis­firði og al­manna­varna­stig lækkað úr hættu­stigi í ó­vissu­stig. Frá þessu er greint í til­kynningu frá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra og lög­reglu­stjóranum á Austur­landi.

Hættu­stig hefur verið í gildi frá 20. desember þegar það var lækkað úr neyðar­stigi vegna skriðunnar sem féll 18. desember síðast­liðinn á Seyðis­firði.

Um er að ræða hús við Hafnar­götu nr. 10, 11, 12, 14, 15, 16b og 18c, en þau hafa öll verið rýmd frá því 18. desember þegar stóra skriðan féll. Búið er að kynna í­búum undir Múla þessa á­kvörðun.

Í til­kynningunni kemur fram að tals­verð hreinsun hafi farið fram á á­hrifa­svæðum skriðu­falla sem féllu 15. til 18. desember og að sú hreinsun hafi gengið vel. Sam­hliða henni hefur verið unnið að bráða­vörnum. Sam­kvæmt til­kynningu er þeim lokið á nokkrum svæðum.

Grannt er fylgst með frekari skriðu­hættu og segir að hún teljist ekki yfir­vofandi til skamms tíma litið. Vegna þessa hefur verið á­kveðið að af­létta rýmingu á þeim húsum sem standa undir Múlanum.

Þá kemur einnig fram í til­kynningu að unnið sé að frum­at­hugun vegna varan­legra varna fyrir byggðina og endur­skoðun á hættu­mati vegna skriðu­falla. Unnið er að sér­stöku mati fyrir svæðið utan við stóru skriðuna sem féll 18. desember við Stöðvar­læk og má búast við niður­stöðum á næstu dögum. Ekki er enn sem komið er heimilt að dvelja í þeim í­búðar­húsum sam­kvæmt á­kvörðun sveitar­stjórnar.

Gerð reita­skipts rýminga­korts vegna hættu á skriðu­föllum er á loka­stigum. Á­fram má búast við að gripið verður til rýminga á næstu mánuðum ef veður­skil­yrði verða ó­hag­stæð eða mikil rigning í veður­spám.