Samfylkingin gerir ráð fyrir að framboðslistar flokksins fyrir Alþingiskosningarnar á næsta ári verði tilbúnir snemma á næsta ári í báðum Reykjavíkurkjördæmunum en athygli vekur að notast er við hina svokölluðu „sænsku leið“ og verður því ekki efnt til prófkjörs.
Uppstillinganefnd hefur nú verið falið að ganga frá framboðslistum Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir kosningarnar en samkvæmt tilkynningu um málið verða niðurstöður könnunar meðal félagsfólks um vænlega frambjóðendur höfð til hliðsjónar við tilnefningarnar.
Miðað við að tilnefningum og könnun ljúki fyrir jól
Fulltrúaráð Samfylkingarfélaganna í Reykjavík, FSR, samþykkti á fundi sínum þann 26. nóvember síðastliðinn að þessi leið yrði farin en kallað verður eftir tilnefningum frá flokksfélögum í Reykjavík og spurt hvaða fólk þau vilji sjá í efstu sætum listanna.
Að því loknu fer fram könnun þar sem fólk merkir við þá sem þeim hugnast best en niðurstöður könnunarinnar verða ekki birtar opinberlega. Miðað er við að tilnefningum og könnuninni ljúki fyrir jól.