Mannauðssvið Háskóla Íslands hefur lokið úttekt á starfs­umhverfi Endurmenntunar HÍ. Úttektin var gerð í tilefni óánægju hjá starfsliðinu. Niðurstöður hennar fást ekki afhentar.

„Þarna er fjallað um starfs­umhverfi á einni einingu hjá okkur og okkur finnst ekki við hæfi að afhenda hana og getum í raun ekki fjallað sérstaklega um þau mál,“ segir Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs HÍ.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er niðurstöðunum lýst sem „svartri skýrslu“ meðal þeirra sem fengið hafa aðgang að úttektinni.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu 6. ágúst síðastliðinn sagði Kristín Jónsdóttir Njarðvík, forstöðumaður Endurmenntunar Háskóla Íslands til 23 ára, starfi sínu óvænt lausu í lok júní, vegna ágreinings við mannauðsskrifstofu háskólans um leiðir til að rannsaka meinta óánægju starfsfólks stofnunarinnar.

Ragnhildur segist ekki geta fjallað um inntak skýrslunnar í kjölfar brotthvarfs Kristínar heldur aðeins þá aðferðarfræði sem hafi veri beitt.

Segir Ragnhildur úttektina hafa náð til ýmissa þátta í starfsemi Endurmenntunar. Hún hafi ekki snúist um einstaka starfsmenn eða stjórnendur, heldur vinnustaðinn í heild.

„Markmiðið er að tryggja heilsu og öryggi á vinnustaðnum,“ lýsir hún tilgangi úttektarinnar.

Að sögn Ragnhildar skiptist úttektin í fjóra meginþætti og fór hún fram með viðtölum við starfsmenn. Í fyrsta lagi sé fjallað um almennt öryggi.

Þar undir sé meðal annars skoðað álag, streitustjórnun, einelti og áreitni. Annar flokkur taki til starfsanda og starfsánægju.

Háskóli Íslands
Fréttablaðið/Anton Brink

Þá sé flokkur um stjórnun sem taki til verklags og verkferla. Að lokum sé litið til hreyfi- og stoðkerfismála starfsmanna. Gerðar séu tillögur til úrbóta í hverjum flokki fyrir sig. Þær snúi bæði að Endurmenntun og að háskólanum í heild.

„Við erum auðvitað að gera þetta til að rýna til gagns og til þess að bæta starfsumhverfið okkar. Þetta er unnið með starfsfólki Endurmenntunar og það hefur fengið kynningu á niðurstöðunum,“ segir Ragnhildur, sem vill lítið tjá sig um viðbrögð starfsfólksins. „Ég finn að minnsta kosti mikinn hug hjá starfsmönnum Endurmenntunar um að taka höndum saman og búa til góðan og öruggan vinnustað.“

Er Kristín Jónsdóttir Njarðvík hvarf úr stóli forstöðumanns Endurmenntunar til annarra starfa tók Guðbjörg við keflinu tímabundið. Starfið hefur síðan verið auglýst og Ragnhildur segir að borist hafi tuttugu umsóknir sem nú sé verið að vinna úr. Það mál sé á borði stjórnar Endurmenntunar.