Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhardt Esau, og Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, fara fyrir dóm fyrir hádegi í dag þar sem farið verður fram á að þeir og fjórir aðrir sem handteknir voru í fyrradag í tengslum við Samherjamálið verði látnir lausir úr haldi gegn tryggingu. Greint er frá þessu á namibíska miðlinum The Namibian Sun, en RÚV greindi fyrst frá.

Í frétt Namibian kemur fram að verjendur ráðherrana eru frá Suður-Afríku og voru áður verjendur Jakob Zuma, fyrrverandi forseta Suður Afríku sem einnig er grunaður um spillingu.

Sexmenningarnir voru allir leiddir fyrir dómara í gær en þá var málinu frestað svo þeir gætu rætt við lögmenn sína.

Umræddir sexmenningar eru meðal annars hinir svokölluðu hákarlar Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu og James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor, Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau auk þeirra eru þeir Ricardo Gustavo, samstarfsmaður James og Pius 'Taxa' Mwatelulo, sem tengist James fjölskylduböndum ákærðir í málinu.

Sacky og James voru handteknir í gærmorgun á búgarði þeirra en hinir fjórir voru teknir fastir í Windhoek, höfuðborg Namibíu.