Saksóknari í Mehamn-málinu svokallaða, Thorstein Lindquister, fer fram á að Gunnar Jóhann Gunnarsson verði dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir að hafa orðið hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, að bana í apríl í fyrra en réttarhöld í málinu fara nú fram. Búist er við að málflutningi í málinu ljúki í dag. 

Líkt og áður hefur komið fram er Gunnar sakaður um að hafa myrt Gísla aðfaranótt 27. apríl 2019 með því að skjóta hann með haglabyssu en Gísli lést af sárum sínum í kjölfarið. Gunnar hafði áður átt í hótunum við bróður sinn eftir að hann komst að sambandi Gísla við barnsmóður Gunnars.

Gunnar er meðal annars ákærður fyrir manndráp, hótanir og brot á nálgunarbanni en verjandi hans, Bjørn André Gulstad, greindi frá því í síðustu viku að Gunnar myndi ekki játa á sig brotið þar sem hann heldur því fram að um slys hafi verið að ræða.

Segir Gunnar hafa myrt bróður sinn af ráðnum hug

Að því er kemur fram í frétt NRK um málið telur Lindquister að Gunnar hafi myrt bróður sinn af ráðnum hug þar sem hann hafði margoft hótað Gísla lífláti. Þá hafi hann játað að hafa orðið bróður sínum að bana í upphafi án þess að taka fram að um slys hafi verið að ræða.

Lindquister sagði enn fremur að hegðun Gunnars kvöldið sem Gísli lést hafi verið með skipulögðum hætti. Hann vísar til þess að Gunnar hafi sagt við vin sinn að hann væri að fara að hitta stelpu um kvöldið en hann hafi greinilega sagt það til að tryggja það að enginn myndi trufla hann.

Hlaut að vita að hlutirnir gætu farið illa

Við réttarhöldin tók saksóknarinn saman atburði kvöldsins áður en Gísli lést. Gunnar hafi farið inn í bíl bróður síns, fundið lyklana að húsi hans, opnað útidyrahurðina og sett lyklana síðan aftur í bílinn. Því næst hafi hann sótt haglabyssu og gengið þaðan til bróður síns.

„Það er ómögulegt að hann hafi ekki vitað af þeim möguleika að þetta gæti farið mjög illa,“ sagði Lindquister en hann gaf lítið fyrir útskýringar Gunnars að um slys hafi verið að ræða. Fingraför Gísla hafi ekki verið á byssunni og skotið hafði beinst að kynfærum Gísla, sem virtist benda til þess að Gunnar vildi niðurlægja hann.

Gerði ekkert til að hjálpa bróður sínum

Þá hafi hegðun Gunnars í kjölfar þess sem hann skaut Gísla vísað til þess að ekki hafi verið um slys að ræða. Hann hringdi ekki eftir hjálp og dró bróður sinn til baka þegar hann reyndi að skríða í átt að hurðinni.

Blóðummerki á vettvangi sýndu enn fremur fram á að Gunnar hafi gengið um húsið og yfir Gísla eftir að hafa skotið hann og því hafi Gunnar ekki gert neitt til að hjálpa bróður sínum sem var að blæða út. Matte Yvonne Larsen, lögfræðingur barnsmóður Gunnars, tók undir með saksóknaranum.

„Þú gengur ekki yfir bróður þinn ef þú ert leiður yfir því að hafa skotið hann,“ sagði Larsen.