Lög­maður fjögurra þing­manna Mið­flokksins hefur krafist þess að fá upp­lýsingar frá fjár­mála­fyrir­tækjum um greiðslur inn á reikning Báru Hall­dórs­dóttur á tíma­bilinu 15. nóvember til 15. desember. Hann hefur lagt fram kröfu um aukna gagna­öflun í málinu. RÚV greinir frá.

Klaustur­málið svo­kallaða hefur verið til um­fjöllunar hjá Per­sónu­vernd frá því um miðjan desember, en þá krafðist lög­maðurinn, Reimar Snæ­fells Péturs­son, þess að rann­sakað yrði hver hefði staðið að hljóð­upp­tökunni á barnum Klaustur. Reimar hefur nú lagt fram aðra kröfu en hún snýr að frekara vöktunar­efni úr öryggis­mynda­vélum Klausturs og Kvosarinnar Downtown hot­els, að því er fram kemur á vef RÚV. Jafn­framt er krafist upp­lýsingar um greiðslur inn á reikning Báru.

Helga Þóris­dóttir, for­stjóri Per­sónu­verndar, stað­festi þetta en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Hún sagði hins vegar að krafan yrði af­greidd eins fljótt og auðið er, lík­lega strax eftir helgi.