Krafist verður áframhaldandi gæsluvarðhalds í dag yfir karlmanni sem grunaður er um að hafa orðið nágranna sínum að bana í byrjun júní síðastliðnum.

Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út í dag, þetta staðfestir Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Fréttablaðið.

Mbl.is greindi fyrst frá.

Einar segir rannsókn málsins ganga vel, „hún er alveg í fullum gangi.“ Nú sé verið að bíða eftir frekari gögnum í málinu.

Maðurinn sem er á þrítugsaldri var úrskurðaður í tæplega fjögurra vikna gæsluvarðhald þann 5. júní síðastliðinn, daginn eftir að meint morð.

Var það gert á grundvelli almannahagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á manndrápinu.

Lögreglan fékk tilkynningu yfirstandandi líkamsárás um hálf átta leytið þann 4. júní fyrir utan hús við Barðavog.

Þegar lögreglan og sjúkraliðar komu á vettvang var maðurinn meðvitundarlaus og andaði ekki.

Endurlífgunartilraunir hófust strax en báru ekki tilætlaðan árangur. Sakborningur var á staðnum og var handtekinn um leið og fluttur á lögreglustöð.

Hann og hinn látni voru nágrannar en ekki er talið að mennirnir hafi tengst að öðru leyti.