Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðar í dag hvort að mennirnir tveir sem hafa verið ákærðir fyrir brot gegn ákvæðum hegningarlaga um hryðjuverk skuli sæta áframhaldandi varðhaldi. Fyrst var greint frá því á vef RÚV í gær.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars mannsins, segir í samtali við Fréttablaðið að þetta hafi komið honum á óvart en fyrr í vikunni var mönnunum sleppt úr varðhaldi eftir að hafa verið þar í um ellefu vikur.
Í úrskurði Landsréttar, sem ákvarðaði að mennirnir skyldu verða lausir úr haldi, er vísað til mats geðlæknis sem sagði að af gögnum málsins væri ekki séð að geðrænt heilbrigði annars mannsins væri þannig að hætta stafi af honum gagnvart honum sjálfum, öðrum einstaklingum eða hópum. Þó tekur geðlæknirinn fram að sitt áhættumat á einstaklingnum gæti leitt til annarrar niðurstöðu en áhættumat lögreglu. Þessi skýrsla byggði á samtölum við manninn, sambýliskonu hans og föður, læknisfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum málsins.

Spurður hvort að það sé algengt að farið sé þessa leið segir Sveinn Andri svo ekki vera en ólíkt áður er nú vísað til 2. málsgreinar 95. greinar sakamálalaga þar sem er kveðið á um að ef sterkur leikur grunur á að einstaklingur hafi framið brot sem varði allt að tíu ára fangelsi þá megi vista hann í varðhaldi. Áður hafði verið farið fram á varðhald á þeim grundvelli að þeir væru hættulegir.
Spurður hvort það hefði verið eðlilegra að fara fram á farbann eða eitthvað annað úrræði segir Sveinn Andri að það gæti verið.
„Það er búið að meta það svo að þeir séu ekki hættulegir öðrum,“ segir Sveinn Andri og að hann sé ágætlega vongóður um að dómstólinn úrskurði þeim í hag.

Einar Oddur Sigurðsson lögmaður hins mannsins tekur í sama streng og Sveinn Andri og segir þetta hafa komið á óvart.
„Þetta hefur farið illa í héraðssaksóknar að þeir hafi verið látnir lausir og þeim hefur þótt erfitt að sætta sig við það,“ segir Einar Oddur.
Hann bendir á að þótt svo að farið sé fram á áframhaldandi varðhald á öðrum grundvelli en áður þá sé geðlæknir búið að leggja mat á það að þeir séu ekki hættulegir og því segist hann temmilega vongóður um að þessu verði vísað frá.
„Það er búið að meta það svo að þeir séu ekki hættulegir.“