Héraðs­dómur Reykja­víkur úr­skurðar í dag hvort að mennirnir tveir sem hafa verið á­kærðir fyrir brot gegn á­kvæðum hegningar­laga um hryðju­verk skuli sæta á­fram­haldandi varð­haldi. Fyrst var greint frá því á vef RÚV í gær.

Sveinn Andri Sveins­son, lög­maður annars mannsins, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að þetta hafi komið honum á ó­vart en fyrr í vikunni var mönnunum sleppt úr varð­haldi eftir að hafa verið þar í um ellefu vikur.

Í úr­skurði Lands­réttar, sem á­kvarðaði að mennirnir skyldu verða lausir úr haldi, er vísað til mats geð­læknis sem sagði að af gögnum málsins væri ekki séð að geð­rænt heil­brigði annars mannsins væri þannig að hætta stafi af honum gagn­vart honum sjálfum, öðrum ein­stak­lingum eða hópum. Þó tekur geð­læknirinn fram að sitt á­hættu­mat á ein­stak­lingnum gæti leitt til annarrar niður­stöðu en á­hættu­mat lög­reglu. Þessi skýrsla byggði á sam­tölum við manninn, sam­býlis­konu hans og föður, læknis­fræði­legum gögnum og rann­sóknar­gögnum málsins.

Sveinn Andri

Spurður hvort að það sé al­gengt að farið sé þessa leið segir Sveinn Andri svo ekki vera en ó­líkt áður er nú vísað til 2. máls­greinar 95. greinar saka­mála­laga þar sem er kveðið á um að ef sterkur leikur grunur á að ein­stak­lingur hafi framið brot sem varði allt að tíu ára fangelsi þá megi vista hann í varð­haldi. Áður hafði verið farið fram á varð­hald á þeim grund­velli að þeir væru hættu­legir.

Spurður hvort það hefði verið eðli­legra að fara fram á far­bann eða eitt­hvað annað úr­ræði segir Sveinn Andri að það gæti verið.

„Það er búið að meta það svo að þeir séu ekki hættu­legir öðrum,“ segir Sveinn Andri og að hann sé á­gæt­lega von­góður um að dóm­stólinn úr­skurði þeim í hag.

Einar Oddur telur að það hafi farið illa í saksóknara að mennirnir hafi verið látnir lausir.
Fréttablaðið/Eyþór

Einar Oddur Sigurðs­son lög­maður hins mannsins tekur í sama streng og Sveinn Andri og segir þetta hafa komið á ó­vart.

„Þetta hefur farið illa í héraðs­sak­sóknar að þeir hafi verið látnir lausir og þeim hefur þótt erfitt að sætta sig við það,“ segir Einar Oddur.

Hann bendir á að þótt svo að farið sé fram á á­fram­haldandi varð­hald á öðrum grund­velli en áður þá sé geð­læknir búið að leggja mat á það að þeir séu ekki hættu­legir og því segist hann temmi­lega von­góður um að þessu verði vísað frá.

„Það er búið að meta það svo að þeir séu ekki hættu­legir.“