Ungir umhverfissinnar sækja Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, í annað sinn, en hún er haldin í Egyptalandi í ár. Tinna Hallgrímsdóttir, forseti Ungra umhverfissinna, segist spennt fyrir ráðstefnunni og að það þýði ekkert annað en að mæta með bjartsýnina að leiðarljósi.

Ráðstefnan er haldin árlega, en Tinna segir hana vera til þess að hægt sé að komast að samkomulagi um hvernig eigi að að útfæra og raungera þau loftslagsmarkmið og aðgerðir sem aðildarríkin hafa komið sér saman um.

„Það er mjög mikilvægt að hafa þennan vettvang á hverju ári,“ segir Tinna. „Við höfum fundað með sendinefnd Íslands fyrir ráðstefnuna og munum halda því áfram á meðan á henni stendur. Við reynum að hafa áhrif og koma okkar sjónarmiðum á framfæri, sem vonandi smitast inn í samningaviðræður.

Það sem við sáum fyrir ráðstefnuna var að skýrsla Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sýndi að við eigum mjög langt í land með að ná markmiði Parísarsáttmálans um tvær gráður, hvað þá eina og hálfa gráðu,“ segir Tinna og vísar í markmið ríkja sem skrifuðu undir Parísarsáttmálann, um að meðalhitastig jarðar hækki ekki meira en tvær gráður.

„Núverandi markmið ríkja stefna okkur í 2,8 gráður, þannig að við verðum að þrýsta á fullnægjandi loftslagsmarkmið og loftslagsstefnu,“ segir Tinna og bætir við að þetta sé kjörinn vettvangur til þess.

„Svo verðum við líka að muna að COP er ekki bara það sem gerist á COP, heldur verða ríki að innleiða það sem þau segjast ætla að gera þegar heim er komið,“ segir Tinna.