Lík tvítugrar stúlku, Emily Sotelo, fannst í hlíðum Lafayette-fjalls í New Hampshire í Bandaríkjunum á miðvikudag, þremur dögum eftir að tilkynnt var um hvarf hennar.
Emily, sem stundaði nám við Vanderbilt-háskólann, hugðist ganga ein á fjallið síðastliðinn sunnudag en þegar hún hafði ekki skilað sér til baka um kvöldið hófst umfangsmikil leit.
Í frétt NBC kemur fram að Emily hafi að líkindum villst og orðið úti enda var þó nokkuð kalt og vindasamt á svæðinu á sunnudag. Slæmt veður gerði björgunarsveitum einnig erfitt fyrir en lík hennar fannst hennar sem fyrr segir á miðvikudag, sama dag og Emily hefði fagnað tuttugu ára afmæli sínu.
David Walsh, landvörður á svæðinu, segir að draga megi lærdóm af þessu sorglega dauðsfalli. Hvetur hann fólk sem hyggst ganga um svæðið að kynna sér veðurspár áður en haldið er af stað, klæða sig eftir veðri, taka með aukaföt og ekki gleyma að taka með sér vatn og næringu.