Hin banda­ríska Karen Rei Pea­se vakti eftir­tekt í dag þegar hún mót­mælti komu Mike Pence fyrir utan Höfða í sund­fötum einum klæða. Hún segist vera ó­sátt við að­skilnaðar­stefnu Trumps og segir að Pence sé engu skárri. „Allt sem Trump gerir, hann skilur það. Hann ber eins mikla sök og Trump“ segir Pea­se í sam­tali við Frétta­blaðið.

Á­stæðan fyrir því að Pea­se á­kvað að mót­mæla á þennan hátt var að þessi að­ferð myndi lík­lega vekja meiri eftir­tekt. Hún segir að sér hafi fundist ó­þægi­legt að vera svona ber­skjölduð en vonar að skila­boð hennar skili sér.

Pea­se segist ekki vilja tengja sig við nú­verandi stjórn Banda­ríkjanna. „Hann er að koma til okkar, hann er að koma heim til mín og ég vildi segja eitt­hvað því það sem er að gerast í Banda­ríkjunum er ekki eðli­legt“ segir Pea­se.

Mike Pence fundaði meðal annars með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, í Höfða í dag.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Frétta­blaðið greindi frá því í júní að tæp­lega tvö þúsund börn hafi verið að­skilin frá fjöl­skyldum við komuna til Banda­ríkjanna á sex vikum. Dóms­málin taka sinn tíma og því geta börnin átt von á að dúsa í flótta­manna­búðum lengi.

Banda­ríkja­menn virða þar með ekki hið svo­kallaða Flor­es sam­komu­lag við dóm­stóla sem meinar stjórn­völdum að halda börnum inn­flytj­enda lengur en í 20 daga. For­svars­menn heima­varnar­ráðu­neytis Banda­ríkjanna telja sig ekki lengur skuld­bundna til að virða sam­komu­lagið.