Lög­reglan á Norður­landi eystra fékk til­kynningu laust eftir klukkan 2 í nótt um að kona á átt­ræðis­aldri hefði farið að heiman frá sér á Akur­eyri, lík­lega um mið­nætti, og ekki skilað sér heim aftur.

Í til­kynningu sem lög­regla birti á Face­book-síðu sinni kemur fram að konan væri alz­heimer-sjúk­lingur og væri því ekki lík­leg til að rata heim aftur.

Að sögn lög­reglu hófst strax eftir­grennslan eftir konunni af hálfu lög­reglu og þá voru björgunar­sveitir í Eyja­firði sem og Þing­ey ræstar út til að­stoðar og leitar auk þess sem að­gerða­stjórn virkjuð.

„Leitað var með skipu­lögðum hætti út frá heimili við­komandi og var það gert með fjölda björgunar­sveitar­manna, lög­reglu­manna, drónum og leitar­hundi. Þó að kalt hafi verið í veðri þá voru að­stæður til leitar á­kjósan­legar og gátu leitar­menn m.a. fylgt lík­legum sporum í snjónum frá heimili við­komandi,“ segir í skeyti lög­reglu.

Það var svo laust fyrir klukkan sjö í morgun að konan fannst heil á húfi og var hún enn á gangi. Að sögn lög­reglu var hún búin að ganga rúm­lega þrjá kíló­metra frá heimili sínu.

Konan var flutt til að­hlynningar á Sjúkra­húsið á Akur­eyri.

„Þökkum við öllum sem að þessu verk­efni komu og sýnir það enn og aftur sam­taka­máttinn sem er til staðar þegar þörf er á,“ segir að lokum í skeyti lög­reglu.