Dóttir foreldra sem voru myrtir í Texas árið 1981 hefur fundist heil á húfi rúmum fjörutíu árum síðar.
Gail Linn Crouse og Harold Dean Crouse höfðu flust frá Flórída til Texas skömmu áður en þau fundust myrt í skóglendi í Houston. Ekki tókst að bera kennsl á líkamsleifar þeirra fyrr en 2021 með DNA rannsókn.
Dóttir þeirra Holly Crouse fannst hins vegar ekki með foreldrum sínum og hafði enga hugmynd um uppruna sinn fyrr en henni var tilkynnt af lögreglu á þriðjudag að blóðforeldrar hennar hafi fundist.
Talið er að dularfullur sértrúarsöfnuður gæti hafa verið viðriðinn morðið á Crouse -hjónunum en meðlimir söfnuðarins tóku Holly að sér og skildu hana eftir í kirkju í Arizona þegar hún var ungbarn.
Tvær konur klæddar í hvítar skikkjur
Á blaðamannafundi á fimmtudag greindi fyrsti aðstoðar fylkissaksóknari Texas, Brent Webster, frá málinu:
„Tvær konur sem sögðust vera meðlimir í trúarlegum hirðingjasöfnuði komu með Holly til kirkjunnar. Þær voru klæddar í hvítar skikkjur og voru berfættar,“ sagði Webster.
Þá kváðust konurnar einnig hafa skilið eftir annað barn á þvottahúsi.
Að sögn saksóknarans boðaði sértrúarsöfnuðurinn sem um ræðir aðskilnað kvenna og karla, grænmetismataræði auk þess sem þau forðuðust hluti úr leðri.
Sögðust hafa bíl hjónanna
Webster sagði að meðlimur safnaðarins sem kallaði sig „systur Susan“ hafi haft samband við Crouse fjölskylduna árið 1980 eða 1981 og greint frá því að Crouse -hjónin hafi gengið til liðs við söfnuðinn og gefið honum allar sínar eigur.
Susan bauð fjölskyldunni að selja þeim bíl hjónanna og hitti fjölskyldan meðlimi safnaðarins á Daytona kappakstursbrautinni í Flórída þar sem uppruni bílsins var staðfestur.
Þrír meðlimir safnaðarins voru þá færðir í gæsluvarðhald af lögreglu en ekki hefur tekist að grafa upp handtökuskýrsluna frá þeim tíma.
Saksóknarinn biðlaði til almennings um að hver sá sem hefði einhverjar upplýsingar um hvarf Crouse -hjónanna eða morð þeirra myndi hafa samband við skrifstofu óupplýstra sakamála hjá fylkissaksóknara Texas.
Fékk fregnirnar á afmælisdegi föður síns
Holly, sem er 42 ára fimm barna móðir og býr í Oklahoma, ólst upp hjá fósturforeldrum en ekki er talið að þau hafi verið viðriðin morðið á blóðforeldrum hennar.
Hún fékk fregnirnar á því sem hefði verið 63 ára afmælisdagur blóðföður hennar og lýsti amma hennar fregnunum sem „afmælisgjöf frá himnum“.
Búist er við því að Holly muni ferðast til Flórída á næstu dögum og hitta eftirlifandi fjölskyldumeðlimi sína.