Dóttir for­eldra sem voru myrtir í Texas árið 1981 hefur fundist heil á húfi rúmum fjöru­tíu árum síðar.

Gail Linn Crou­se og Harold Dean Crou­se höfðu flust frá Flórída til Texas skömmu áður en þau fundust myrt í skóg­lendi í Hou­ston. Ekki tókst að bera kennsl á líkams­leifar þeirra fyrr en 2021 með DNA rann­sókn.

Dóttir þeirra Holly Crou­se fannst hins vegar ekki með for­eldrum sínum og hafði enga hug­mynd um upp­runa sinn fyrr en henni var til­kynnt af lög­reglu á þriðju­dag að blóð­for­eldrar hennar hafi fundist.

Talið er að dular­fullur sér­trúar­söfnuður gæti hafa verið við­riðinn morðið á Crou­se -hjónunum en með­limir söfnuðarins tóku Holly að sér og skildu hana eftir í kirkju í Arizona þegar hún var ung­barn.

Tvær konur klæddar í hvítar skikkjur

Á blaða­manna­fundi á fimmtu­dag greindi fyrsti að­stoðar fylkis­sak­sóknari Texas, Brent Web­ster, frá málinu:

„Tvær konur sem sögðust vera með­limir í trúar­legum hirðingja­söfnuði komu með Holly til kirkjunnar. Þær voru klæddar í hvítar skikkjur og voru ber­fættar,“ sagði Web­ster.

Þá kváðust konurnar einnig hafa skilið eftir annað barn á þvotta­húsi.

Að sögn sak­sóknarans boðaði sér­trúar­söfnuðurinn sem um ræðir að­skilnað kvenna og karla, græn­metis­matar­æði auk þess sem þau forðuðust hluti úr leðri.

Sögðust hafa bíl hjónanna

Web­ster sagði að með­limur safnaðarins sem kallaði sig „systur Susan“ hafi haft sam­band við Crou­se fjöl­skylduna árið 1980 eða 1981 og greint frá því að Crou­se -hjónin hafi gengið til liðs við söfnuðinn og gefið honum allar sínar eigur.

Susan bauð fjöl­skyldunni að selja þeim bíl hjónanna og hitti fjöl­skyldan með­limi safnaðarins á Daytona kapp­aksturs­brautinni í Flórída þar sem upp­runi bílsins var stað­festur.

Þrír með­limir safnaðarins voru þá færðir í gæslu­varð­hald af lög­reglu en ekki hefur tekist að grafa upp hand­töku­skýrsluna frá þeim tíma.

Sak­sóknarinn biðlaði til al­mennings um að hver sá sem hefði ein­hverjar upp­lýsingar um hvarf Crou­se -hjónanna eða morð þeirra myndi hafa sam­band við skrif­stofu ó­upp­lýstra saka­mála hjá fylkis­sak­sóknara Texas.

Fékk fregnirnar á af­mælis­degi föður síns

Holly, sem er 42 ára fimm barna móðir og býr í Okla­homa, ólst upp hjá fóstur­for­eldrum en ekki er talið að þau hafi verið við­riðin morðið á blóð­for­eldrum hennar.

Hún fékk fregnirnar á því sem hefði verið 63 ára af­mælis­dagur blóð­föður hennar og lýsti amma hennar fregnunum sem „af­mælis­gjöf frá himnum“.

Búist er við því að Holly muni ferðast til Flórída á næstu dögum og hitta eftir­lifandi fjöl­skyldu­með­limi sína.