Rúmenar sem störfuðu fyrir Menn í vinnu í janúar og febrúar 2019 bjuggu við óboðlegar aðstæður við Dalveg 24 í Kópavogi. Fimmtán manns deildu einu salerni og einu eldhúsi í ósamþykktu húsnæði fyrir ofan bílaþvottastöð þar sem var stöðug málningar- og brunalykt. Enginn viðeigandi brunaútgangur var í húsinu og oft voru fjórir eða fimm saman í einu herbergi.

„Þetta var mjög slæmt. Ómannúðlegar aðstæður,“ segir Romario Valentin, 25 ára karlmaður.

„Þetta var áfall. Ég þekkti engan, var peningalaus, langt í burtu frá heimalandi mínu í landi þar sem ég talaði ekki tungumálið,“ segir Sorin Marinescu, 32 ára karlmaður.

„Það var mjög skítugt og stundum voru slagsmál bara til að komast í eldavélina fyrst, það voru svo margir að bíða í röð,“ segir Petruta Roxana Musat, 31 árs kona.

„Martröð. Þetta var martröð þar sem mér fannst ég misnotaður mjög illa. Þetta var niðurlægjandi,“ segir Alexandru Tudose, 20 ára karlmaður.

Þetta kom fram í skýrslutöku við aðalmeðferð á máli fjögurra Rúmena gegn starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu og fyrirtækinu Eldum rétt í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Alexandru Tudose, Petruta Roxana Musat, Romario Valentin og Sorin Marinescu höfða mál vegna vangoldinna launa, ólögmæts frádráttar af launum og vanvirðandi meðferðar á meðan á vinnu þeirra stóð. Segjast þau öll hafa fengið talsvert lægri laun en þeim var upphaflega lofað þegar þau voru ráðin til starfa. Enginn hafi skrifað undir leigusamning og þau vissu ekki fyrir fram hvað þau myndu greiða í leigu.

Þessir grátandi Rúmenar

Í skýrslutöku yfir Höllu Rut Bjarnadóttur, eiganda starfsmannaleigunnar, sagði hún eiginmann Petrutu Roxönu hafa verið einn forsprakka „grátandi Rúmenanna“ sem hefðu eyðilagt líf hennar með því að fara í fjölmiðla.

„Líf mitt er bara ónýtt, það er bara þannig. Ég get ekki fundið mér vinnu, það „googla“ allir mig. Synir mínir hafa liðið mikið fyrir þetta. Tvisvar hef ég þurft að yfirgefa heimili mitt þótt það sé búið að sanna fyrir rétti að þetta sé lygi. Það er ekki nóg fyrir þetta fólk, heldur birtir það myndir af mér og „Facebook“-inu mínu í fréttum í Rúmeníu. Ég hef aldrei verið kærð fyrir neitt eða sökuð um neitt af lögreglu. Þau hætta aldrei, þau halda bara áfram og ljúga áfram.“

Halla Rut játaði fyrir dómara að húsnæðið þar sem vinnufólkið bjó hafi ekki verið samþykkt íbúðarhúsnæði. „Þetta var nýinnréttað hús í þjónustukjarna við hliðina á bónstöð. Við fengum ekki leyfi til að hafa íbúð en við fengum slökkvilið til að taka út húsið og setja brunakerfi.“

Efling steig inn í málið í byrjun febrúar árið 2019 og var mansals­teymi félagsmálaráðuneytis virkjað og með aðstoð Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar var íbúum á Dalvegi 24 komið fyrir á gistiheimili við Sundlaugarveg og þeim veitt neyðaraðstoð.

Smánarlaun og engar kvittanir fyrir frádrætti

ROMARIO:

Fékk um 36 þúsund krónur í laun – 126 þúsund krónur dregnar af launum fyrir leigu, bensíni, flugmiða og fleiru.

SORIN:

Fékk um 41 þúsund krónur í laun – 128 þúsund krónur dregnar af launum fyrir leigu, bensíni, flugmiða og fleiru.

PETRUTA:

Fékk um 29 þúsund krónur í laun – 196 þúsund dregnar af launum fyrir leigu, bensíni, flugmiða og fleiru.

ALEXANDRU

Fékk um 46 þúsund krónur í laun – 160 þúsund krónur dregnar af launum fyrir leigu, bensíni, flugmiða og fleiru.