Birna Dröfn Jónasdóttir
Föstudagur 18. nóvember 2022
22.45 GMT

Hálfdán Árnason var átján ára þegar hann lenti í bílslysi, hann keyrði á 14 ára stúlku sem var að ganga yfir gangbraut með þeim afleiðingum að hún lést. Í skýrslu rannsóknarnefndar umferðarslysa um slysið segir að svo virðist sem hvorugt hafi séð til hins, að um slys hafi verið að ræða.

„Ég mun aldrei gleyma þessum degi,“ segir Hálfdán, sem nú er 35 ára gamall. „Ég man alveg hvað ég var að gera og bara allt, en samt man ég engin smáatriði sem tengjast slysinu, það er eins og ég hafi einhvern veginn blokkað þau út,“ segir hann.

Hálfdán var að keyra á Bæjarbraut í Garðabæ þegar slysið varð. Hann var á leiðinni í klippingu. „Hún er svo að ganga yfir gangbrautina, ég sé hana ekki og hún sér mig ekki,“ segir Hálfdán. Aðkoma að gangbrautinni var að mati rannsóknarnefndarinnar varhugaverð, síðan slysið varð hafa aðstæður þar verið lagaðar. Sett hafa verið upp gönguljós og aðkomuleiðin hefur verið lagfærð.

„Það er ömurlegt að svona alvarlegt atvik þurfi til þess að aðstæður séu lagaðar,“ segir Hálfdán.

„Ég vissi strax að þetta væri alvarlegt, ég fór út úr bílnum og kallaði á hjálp. Svo komu þarna tvær konur og ég fann strax að ég hafði gert eitthvað hræðilegt, þær byrjuðu strax að skamma mig og þetta var bara hræðilegt,“ útskýrir hann.


„Ég vissi strax að þetta væri alvarlegt, ég fór út úr bílnum og kallaði á hjálp.“


Hann var færður á lögreglustöð þar sem teknar voru blóðprufur, hann segist strax hafa fundið til mikillar sektarkenndar og álitið að andlát stúlkunnar væri sér að kenna. „Það voru allir einhvern veginn svo reiðir við mig, ég var settur strax í blóðprufu og ég skil það alveg, en ég er með rosalega sprautuhræðslu og man að ég sagði: Plís, má ég leggjast niður, annars líður bara yfir mig. En það hlustaði enginn á mig heldur var bara horft á mig eins og ég væri í einhverju rugli eða að það væri eitthvað að mér.“

Niðurstöður allra prófa sýndu fram á að Hálfdán var ekki undir áhrifum áfengis eða vímuefna þegar slysið varð. „Ég er bara mjög feginn að það var ekkert þannig, þá hefði þetta orðið enn þá erfiðara, ef að einhver ákvörðun sem ég hefði tekið meðvitað hefði getað haft áhrif á þetta slys. Ég var að dæma sjálfan mig og það sem ég hafði gert nógu mikið,“ segir hann.

Hálfdán kenndi sjálfum sér lengi um dauða stúlkunar og áttaði sig ekki á að um slys hefði verið að ræða.
Fréttablaðið/Ernir

Vildi ekki lifa

Stúlkan var færð á sjúkrahús eftir slysið þar sem hún barðist fyrir lífi sínu í nokkra daga áður en hún lést. Þá daga segir Hálfdán hafa verið erfiða en að að stóri skellurinn hafi komið þegar hann fékk fréttir af andláti hennar.

„Ég var bara búinn að vera heima þessa daga sem hún var á spítalanum og það var fullt af fólki búið að koma í heimsókn, vinir mínir og svona. Þeir voru líka oft búnir að biðja mig að koma út og þarna segi ég loksins já, ætlaði bara aðeins að kíkja með þeim út,“ segir Hálfdán.

„Svo þegar ég er að labba út í bíl þá kallar pabbi á mig og ég sný við, þá segir hann mér að hún sé dáin.“


„Svo þegar ég er að labba út í bíl þá kallar pabbi á mig og ég sný við, þá segir hann mér að hún sé dáin.“


Hálfdán segist ekki hafa búist við því að stúlkan myndi deyja, hann hafi haldið í vonina og trúað því að henni myndi batna. „Ég vonaði það svo mikið, en þarna kom stóri skellurinn,“ segir hann.

„Þegar pabbi kallaði á mig þá vissi ég strax hvað hann væri að fara að segja mér. Næstu mánuðir voru svo bara í algjörri móðu og ég kenndi sjálfum mér um, hugsaði aldrei um að þetta hefði verið slys, bara að ég hefði gert þetta,“ segir hann.

„Ég lokaði mig af og fannst ég ekki eiga rétt á neinu. Ég man að einu sinni var ég að spila tölvuleik þar sem spýtukarlar voru að kasta spýtum hver í annan og mér fannst ég ekkert mega spila svona leiki. Ég sem var nýbúinn að drepa manneskju að spila svona tölvuleik, það er ógeðslegt að segja þetta, en svona leið mér,“ segir Hálfdán.

Við tók langur tími þar sem Hálfdáni leið illa og hann hugsaði um að taka sitt eigið líf. „Ég bara gat ekki meira og mér fannst ég ekki eiga skilið að lifa, hún var dáin og það var mér að kenna, þannig leið mér, en samt var eitthvað sem stoppaði mig í því að framkvæma þetta, sem betur fer, ég gat ekki gert fjölskyldunni minni og vinum það,“ segir hann.

Hálfdán segir foreldra sína hafa staði þétt við bakið á sér eftir slysið. „Þau sögðu mér til dæmis ekki frá því að ég þyrfti að fara fyrir dóm fyrr en bara sama dag og ég átti að mæta. Þau vissu bara að ég gat ekki tekið meira á mig,“ segir hann, en Hálfdán missti bílprófið og fékk skilorðsbundinn dóm.

Hálfdán segist hafa orðið var við breytingar til batnaðar varðandi andleg veikindi á Íslandi. Nú sé frekar tekið tillit til þeirra sem eru andlega veik.
Fréttablaðið/Ernir

Opnari umræða

Alveg frá því að slysið átti sér stað hefur Hálfdán unnið mikið í sjálfum sér og reynt hvað hann getur til að líða betur. Líðanin hefur verið upp og niður og segir hann að undanfarin ár hafi orðið mikil hugarfarsbreyting á því hér á landi hvernig litið er á andleg veikindi.

„Þetta var þannig að ekkert var talað um þetta. Núna er umræðan miklu opnari og fólk er hvatt til þess að tala um það hvernig því líður, loksins er það að verða þannig að litið er á andleg veikindi eins og önnur veikindi,“ segir hann.

Í langan tíma eftir slysið var Hálfdán óvinnufær, hann var í skóla en átti erfitt með að mæta og halda sér við efnið. Hann kláraði þó listnámsbraut í Iðnskólanum í Hafnarfirði og vinnur nú sem tónlistarmaður og málari.

„Það tók mig sex ár að klára nám sem ætti að taka þrjú ár. Ég stóð mig alveg vel en ég féll alltaf á mætingu,“ segir hann.

Spurður að því hvort ekki hafi verið tekið tillit til aðstæðna hans í skólanum segir hann svo ekki hafa verið. „Ég fann alveg að fólk var með mér í liði, fann til með mér og svona, en það var samt ekki tekið tillit til þess. Fólk var mikið að segja mér að ég ætti að gera þetta og hitt og þá myndi mér líða betur. Ég þyrfti til dæmis að sofa meira, eins og ég hafi ekki vitað það,“ segir Hálfdán, en í mörg ár átti hann í miklum erfiðleikum með svefn.

„Sama hvað ég gerði þá gat ég ekki sofið, ég var með áfallastreitu og kvíða og ég hugsaði endalaust um þetta og sá fyrir mér,“ segir hann. „Og þegar maður sefur ekki þá verður allt annað verra, maður hættir að átta sig á því hvað er orsök og hvað er afleiðing, þó að ég hafi alltaf vitað að ástæðan fyrir því að mér leið svona var þetta slys, sem ég áttaði mig ekki strax á að hefði verið slys.“


„Sama hvað ég gerði þá gat ég ekki sofið, ég var með áfallastreitu og kvíða og ég hugsaði endalaust um þetta og sá fyrir mér.“


Hann segir þó að samtal hans við einn mann hafi breytt miklu og hjálpað honum að komast á þann stað sem hann er á í dag. „Ég hitti mann sem hafði lent í því sama og ég. Hann sagði mér að þetta yrði í lagi, ég gæti lifað góðu lífi,“ útskýrir Hálfdán.

„Það voru svo margir búnir að segja mér að þetta yrði allt í lagi og ég veit að það kom frá góðum stað en ég hugsaði bara: Þú veist ekkert um það. En þessi maður vissi það. Hann var eldri en ég og átti fjölskyldu og lifði góðu lífi, það gaf mér einhverja von og ég trúði honum,“ segir Hálfdán.

„Ég sá líka að hann gat verið glaður en ég átti svo erfitt með það og þegar það gerðist þá skammaðist ég mín fyrir það. Það var eiginlega eitt það versta við þetta allt. Mér leið alltaf svo illa en í þessi fáu skipti sem ég varð glaður eða leið vel, þá hélt ég að fólk sæi mig og hugsaði bara með sér hvort ég væri ekki með sál. Hvernig maður sem hefði gert það sem ég gerði gæti brosað,“ útskýrir Hálfdán.

„Ég hitti mann sem hafði lent í því sama og ég. Hann sagði mér að þetta yrði í lagi, ég gæti lifað góðu lífi,“ segir Hálfdán.
Fréttablaðið/Ernir

Lifir fyrir þau bæði

Núna er Hálfdán hamingjusamur, hann á tvö börn, kærustu og tvö stjúpbörn og nýtur lífsins. Spurður að því hvað það hafi verið sem breyttist og varð til þess að honum fór að líða betur segir Hálfdán það margþætt.

„Það var auðvitað fjölskyldan mín og vinir og það sem þessi maður sem ég nefndi áðan sagði hjálpaði mér mikið. En annað sem bjargaði mér var það hvernig foreldrar hennar hugsuðu til mín,“ segir hann, og á þar við foreldra stúlkunnar sem lést í slysinu.

„Þau voru svo skilningsrík, ég sjálfur hef ekki talað mikið við þau en ég hef heyrt að þau vilji það besta fyrir mig,“ segir Hálfdán og þakklætið leynir sér ekki. „Það besta sem ég heyrði var að nú væri ég að lifa fyrir hana líka og þá væri mikilvægt að ég ætti gott líf,“ bætir hann við.

„Ég veit að ef þau hefðu brugðist öðruvísi við þá hefði þetta verið enn þá erfiðara fyrir mig. Ég var farinn að geta sagt það út á við að þetta hefði verið slys, en ég trúði því ekki sjálfur. Það tók mig mjög langan tíma að trúa því í alvörunni,“ segir Hálfdán.

Þá segir hann tónlist hafa átt stóran þátt í því að hann lifði af. „Oft gat ég ekki hitt fólk í marga daga, lokaði mig bara af og spilaði á bassann. Ég fann einhverja ró og hugleiðslu í því að spila og semja tónlist, tónlistin gaf mér gleði sem ég fann hvergi annars staðar,“ segir Hálfdán.

„Ég vildi auðvitað mest af öllu að ekkert af þessu hefði gerst, að þetta slys hefði aldrei orðið, en það jákvæða sem kom út úr þessu er að ég er búinn að læra mikið á sjálfan mig og lífið. Ég er næmari og er orðinn enn betri tónlistarmaður, af því að ég náði oft að færa tilfinningar mínar yfir í tónlistina og fá útrás þar,“ segir Hálfdán, en hann er nú á tónleikaferðalagi um Holland.

Háfdán spilar á bassa og kennir börnum tónlist, Hann segir tónlistina eiga stóran hluti í því að hann fann hamingjuna að nýju.
Mynd/Kristinn R. Kristinsson

Löng refsing

Hálfdán var lengi hjá sálfræðingi, sem hann ber vel söguna. Hann segir mikla synd að ekki sé tekinn frekari þáttur í kostnaði vegna sálfræðiþjónustu hér á landi. „Þetta er svo mikilvægt og var það fyrir mig, ætti í rauninni að vera frítt,“ segir hann.

„Ég man alltaf eftir því þegar ég var einu sinni hjá sálfræðingnum mínum og ég hafði verið mjög langt niðri og hún segir við mig: Hálfdán, þú ert í rauninni búinn að vera í fangelsi í tíu ár, er þetta ekki komið gott af refsingu? Menn fara í fangelsi fyrir að drepa einhvern af ásettu ráði og eru jafnvel lausir eftir þennan tíma, af hverju mátt þú ekki losna?“ útskýrir Hálfdán.

„Þetta setti hlutina í ákveðið samhengi fyrir mig og ég varð tilbúnari til að takast á við það sem hafði gerst og vinna úr því af alvöru.“


„Hún segir við mig: Hálfdán, þú ert í rauninni búinn að vera í fangelsi í tíu ár, er þetta ekki komið gott af refsingu?“


Þarna fékk Hálfdán tækifæri til að fara í VIRK og vinna í sjálfum sér, það tækifæri segir hann eiga hlut í því að bjarga lífi hans. „Ég hafði eins og ég sagði ekki getað unnið, og af því ég gat það ekki þá átti ég lítinn pening og það er mjög dýrt að vinna í sjálfum sér og batna af andlegum veikindum,“ útskýrir hann.

„Þarna fékk ég að vinna við það að vinna í sjálfum mér, ég fékk pening og tíma og áður en sálfræðingurinn benti mér á þetta þá vissi ég ekki að þetta væri til, ég væri ekki hérna á þessum stað ef ég hefði ekki fengið að gera þetta,“ segir Hálfdán.

Var líka fórnarlamb

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa er á morgun. Dagurinn er haldinn til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni og þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun. Í ár er lögð sérstök áhersla á öryggi óvarinna vegfarenda, ásamt því að leiða hugann að þeim sem hafa orðið valdir að umferðarslysum.

Spurður um mikilvægi þess að leiða hugann að fólki sem lendir í aðstæðum eins og hans, segir Hálfdán það afar mikilvægt. „Ég fann alveg að langflestir skildu að þetta væri slys og ekki mér að kenna, löngu áður en ég skildi það. Auðvitað voru einhverjir sem voru ótrúlega reiðir út í mig og ég skil það alveg, ég heyrði seinna af því að hópur ungra stráka hefði ætlað að lemja mig,“ segir hann.

„Ég skildi þá vel og vildi helst bara fara beint til þeirra og láta þá lemja mig, ég ætti það skilið en núna veit ég að þetta er ekki svona einfalt. Þeir elskuðu hana og voru að hugsa vel til hennar og enginn veit hvernig maður á að vera í svona aðstæðum,“ heldur Hálfdán áfram.

„Núna veit ég að ég var líka fórnarlamb í þessu slysi og ég hefði líka þurft að fá að heyra það strax. Ég er sterk manneskja og enn þá sterkari af því ég lenti í þessu, ég er búinn að vinna í sjálfum mér og þekki mig vel,“ segir hann.

Hálfdán hefur á árunum síðan slysið varð unnið mikið í sjálfum sér og segist nú vera sterkari en áður og þekkja sjálfan sig vel.
Fréttablaðið/Ernir

Hálfdán á sem fyrr segir tvö börn, ellefu ára strák og sjö ára stelpu. „Það að þau viti hvað gerðist getur kannski útskýrt fyrir þeim af hverju mitt líf hefur verið eins og það er. Ég varð lífhræddur eftir þetta. Keyrði ekki í mörg ár, varð lofthræddur og rosalega flughræddur, af því ég vissi hvað gæti gerst, hvernig allt gæti breyst,“ segir hann.

Hálfdán segist þó reyna að yfirfæra kvíðann og hræðsluna ekki á sín börn. „Ég verð bara að passa þau og kenna þeim að fara varlega. Lífið er bara svona, allt getur gerst og maður veit aldrei hvenær eða hvernig. Ég er búinn að vera hálfa ævina að vinna úr þessu og núna ætla ég að njóta þess að vera hamingjusamur,“ segir Hálfdán.

Ef þér eða einhverjum sem þú þekkir líður illa skaltu leita þér hjálpar. Píeta samtökin eru opin allan sólarhringinn s: 552 2218, einnig Hjálparsími Rauða krossins s: 1717, einnig er hægt að fá aðstoð í netspjallinu á 1717.is

Athugasemdir