Átta ára gamall þýskur drengur lifði af átta daga í hol­ræsi áður en lög­regla fann hann. Talið er að ef ná­granni hefði ekki heyrt drenginn gráta hefði hann hugsan­lega aldrei fundist. El País greinir frá.

Eftir átta daga leit fann þýska lög­reglan átta ára gamlan dreng sem hvarf af heimili sínu í Olden­burg í norð­vestur­hluta Þýska­lands. Drengurinn, sem heitir Joe, fannst í hol­ræsi, að­eins 300 metrum frá húsi sínu. Talið er að drengurinn hafi dvalist í holræsinu allan tímann án þess að koma upp á yfirborðið, á meðan hundruð lög­reglu­manna og sjálf­boða­liða leituðu að honum.

„Hinn átta ára gamli Joe lifir!“ til­kynnti lög­reglan í Olden­burg á sam­fé­lags­miðlinum Twitter þegar drengurinn fannst.

Joe litli, sem á við námsörðug­leika að stríða, var að leik í garðinum heima hjá sér þegar hann hvarf. Lög­regla hóf sam­stundis um­fangs­mikla leit með drónum, þyrlum og leitar­hundum, og tóku tugir lög­reglu­manna og tæp­lega hundruð sjálf­boða­liðar þátt í leitinni. Eftir því sem á leið leitina bættust rann­sóknar­lög­reglu­menn í hópinn, þar sem óttast var að Joe gæti mögu­lega verið fórnar­lamb of­beldis­glæps eða að honum hefði verið rænt. Vitni sem sá til drengsins sagðist hafa séð hann á­samt ó­kunnugum manni rétt áður en hann hvarf.

Tals­maður lög­reglunnar, Stephan Klatte, sagði fundinn hafa verið fyrir „al­gjöra heppni“. Ná­granni hafði verið í göngu­túr á svæðinu og heyrt „á­mát­legt væl“ koma upp úr hol­ræsi. Þegar lög­reglu­menn mættu á svæðið og lyftu lokinu af hol­ræsinu fundu þeir Joe, kvik­nakinn. Hann virtist ekki vera með neina sjáan­lega út­vortis á­verka, en þjáðist af vökvaskorti og of­kælingu og var sam­stundis fluttur á sjúkra­hús til að­hlynningar. Að sögn þýskra fjöl­miðla er drengurinn á bata­vegi .

„Ef hann hefði ekki gefið frá sér hljóð eða ef ná­granninn hefði ekki heyrt til hans hefðum við kannski aldrei fundið hann,“ sagði Klatte.

Í yfir­lýsingu frá lög­reglu segir að talið sé að Joe hafi komist inn í frá­rennslis­kerfi um niður­fall og hafi orðið „átta­villtur eftir að hafa gengið nokkra metra.“ Lög­regla hefur úti­lokað að nokkuð glæp­sam­legt hafi átt sér stað eftir að hafa stutt­lega rætt við drenginn og ekki er enn vitað afhverju hann var svo klæðalítill þegar hann fannst.

Þó hafi lög­regla ekki náð að yfir­heyra drenginn að fullu þar sem hann er enn á spítala.