Katta­eig­andanum Ás­rúnu Fanný Hil­mars­dóttur brá nokkuð í brún þegar hún ætlaði að klappa litla kettlingnum sínum því í feldi hans fann hún ó­venju­legt skor­dýr. Við nánari at­hugun reyndist það vera skógarmítill sem hafði þar komist inn á heimilið.

Ás­rún er nú búin að fanga mítilinn í lítið plast­box en kærasti hennar ætlar að fara með dýrið á Náttúru­fræði­stofnun. Það hefur því ekki verið stað­fest af skor­dýra­fræðingi að hér sé skógarmítill á ferð en það virðist ekki fara á milli mála þegar mynd af því er skoðuð. Mítillinn hefur nokkuð ein­kennandi út­lit.

Skógarmítillinn bíður nú eftir að komast á greiningar­stofu Náttúru­fræði­stofnunar.
Fréttablaðið/Aðsend

Ás­rún býr í Hafnar­firði og er með kött á heimilinu. Sá var ný­búinn að eiga kettlinga og telur Ás­rún næsta víst að læðan hafi komið með mítilinn með sér í feldinum inn á heimilið. Hann hafi svo stokkið af henni á einn kettlinganna.

Skógarmítlar geta verið stór­hættu­legir fólki því þeir geta borið með sér bakteríu sem getur valdið Lyme-sjúk­dómnum, al­var­legum tauga­sjúk­dómi.