„Þegar þetta datt í gólfið og hreyfði sig þá sá ég að þetta var skógarmítill,“ segir Tinna Ösp Brooks Skúladóttir, íbúi í Hafnarfirði og hundaeigandi, í samtali við Fréttablaðið.
Tinna vakti athygli á því í Facebook-hópi hundafólks að hún hefði fundið skógarmítil á hundinum sínum. Tinna er búsett í Hafnarfirði og virðist hundurinn hennar, tík af tegundinni Papillon, hafa komist í snertingu við mítilinn þar, hundurinn hafi að minnsta kosti ekki farið út fyrir bæinn í þó nokkurn tíma.
„Við höfum verið að labba um gamla bæinn í Hafnarfirði. Við búum rétt við St. Jósefsspítala og trén hérna eru mjög há og mikið af gróðri hérna,“ segir hún.
Orðinn landlægur
Skógarmítill hefur verið að festa sig í sessi hér á landi undanfarin ár. Í umfjöllun Erlings Ólafssonar skordýrafræðings á Vísindavefnum kemur fram að um sé að ræða blóðsugu á spendýrum sem heldur sig í gróðri, einkum í skógarbotnum. Þá bendir Erling á það að allmörg staðfest tilfelli skógarmítils hafi greinst á Íslandi og flestir hafi fundist á mönnum og hundum.
„Skógarmítill er að öllum líkindum orðinn landlægur. Það þarf ekki að koma á óvart því útbreiðsla hans er að færast norðar með hlýnandi loftslagi,“ sagði Erling í grein sinni en athygli er vakin á því að hún var skrifuð árið 2010.
Skógarmítlar geta borið bakteríuna Borrelia burgdorferi sem veldur Lyme-sjúkdómi í mönnum, en sjúkdómurinn getur haft mikil áhrif og lagst á miðtaugakerfi manna. Ekki er þó vitað til þess að mítlar hér á landi hafi borið umrædda bakteríu.
Mikilvægt að fjarlægja hann rétt
Tinna taldi þó rétt að láta hundaeigendur vita enda er aldrei of varlega farið. „Síðastliðið sumar var mjög hlýtt, það er mikið af flugu, býflugu og maðki og það er eins og öll skordýr komi rosalega vel undan vetri. Þannig að maður er kannski ekkert hissa,“ segir hún en tekur þó fram að hún sé enginn sérfræðingur í skordýrafræði.
Tinna segist í fyrstu hafa talið að um væri að ræða lausan húðflipa á eyra hundsins. Um leið og hann datt á gólfið og byrjaði að hreyfa sig hafi hún áttað sig á að um mítil var að ræða. „Ég bjóst við að þetta væri ógeðslegra en þetta var eins og húð og það er kannski þess vegna sem hann nær að fela sig,“ segir hún.
Mikilvægt er að beita réttum handtökum þegar skógarmítlar eru fjarlægðir. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ræddi málið við Vísi árið 2014 og þá sagði hann að best væri að nota flísatöng. „Það er oft talað um að það eigi að hella á hann ýmsum efnum, steinolíu eða kveikja í honum og fleira. Það er algert bull. Frekar á að ná honum með venjulegri flísatöng og þá þarf að ná undir nefið á honum. Klípa þar og lyfta honum beint upp. Það er meðferðin til að ná honum rétt út,“ sagði hann. Ítrekaði hann í sama viðtali að aldrei hefði verið staðfest smit hér á landi vegna bits.