„Þegar þetta datt í gólfið og hreyfði sig þá sá ég að þetta var skógarmítill,“ segir Tinna Ösp Brooks Skúla­dóttir, íbúi í Hafnar­firði og hunda­eig­andi, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Tinna vakti at­hygli á því í Face­book-hópi hunda­fólks að hún hefði fundið skógarmítil á hundinum sínum. Tinna er bú­sett í Hafnar­firði og virðist hundurinn hennar, tík af tegundinni Papill­on, hafa komist í snertingu við mítilinn þar, hundurinn hafi að minnsta kosti ekki farið út fyrir bæinn í þó nokkurn tíma.

„Við höfum verið að labba um gamla bæinn í Hafnar­firði. Við búum rétt við St. Jósefs­spítala og trén hérna eru mjög há og mikið af gróðri hérna,“ segir hún.

Orðinn landlægur

Skógarmítill hefur verið að festa sig í sessi hér á landi undan­farin ár. Í um­fjöllun Erlings Ólafs­sonar skor­dýra­fræðings á Vísinda­vefnum kemur fram að um sé að ræða blóð­sugu á spen­dýrum sem heldur sig í gróðri, einkum í skógar­botnum. Þá bendir Er­ling á það að all­mörg stað­fest til­felli skógarmítils hafi greinst á Ís­landi og flestir hafi fundist á mönnum og hundum.

„Skógarmítill er að öllum líkindum orðinn land­lægur. Það þarf ekki að koma á ó­vart því út­breiðsla hans er að færast norðar með hlýnandi lofts­lagi,“ sagði Er­ling í grein sinni en at­hygli er vakin á því að hún var skrifuð árið 2010.

Skógarmítlar geta borið bakteríuna Borreli­a bur­gdor­feri sem veldur Lyme-sjúk­dómi í mönnum, en sjúk­dómurinn getur haft mikil á­hrif og lagst á mið­tauga­kerfi manna. Ekki er þó vitað til þess að mítlar hér á landi hafi borið um­rædda bakteríu.

Mikilvægt að fjarlægja hann rétt

Tinna taldi þó rétt að láta hunda­eig­endur vita enda er aldrei of var­lega farið. „Síðast­liðið sumar var mjög hlýtt, það er mikið af flugu, bý­flugu og maðki og það er eins og öll skor­dýr komi rosa­lega vel undan vetri. Þannig að maður er kannski ekkert hissa,“ segir hún en tekur þó fram að hún sé enginn sér­fræðingur í skor­dýra­fræði.

Tinna segist í fyrstu hafa talið að um væri að ræða lausan húð­flipa á eyra hundsins. Um leið og hann datt á gólfið og byrjaði að hreyfa sig hafi hún áttað sig á að um mítil var að ræða. „Ég bjóst við að þetta væri ó­geðs­legra en þetta var eins og húð og það er kannski þess vegna sem hann nær að fela sig,“ segir hún.

Mikil­vægt er að beita réttum hand­tökum þegar skógarmítlar eru fjar­lægðir. Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir ræddi málið við Vísi árið 2014 og þá sagði hann að best væri að nota flísa­töng. „Það er oft talað um að það eigi að hella á hann ýmsum efnum, stein­olíu eða kveikja í honum og fleira. Það er al­gert bull. Frekar á að ná honum með venju­legri flísa­töng og þá þarf að ná undir nefið á honum. Klípa þar og lyfta honum beint upp. Það er með­ferðin til að ná honum rétt út,“ sagði hann. Ítrekaði hann í sama viðtali að aldrei hefði verið staðfest smit hér á landi vegna bits.

Skógarmítlar á Vísinda­vefnum

Skógarmítlar á vef Land­læknis

Skógarmítlar á vef Náttúru­fræði­stofnunar Ís­lands