Fjór­tán ára stúlka í Nyköping í Sví­þjóð, Jenni­fer Mikkel­sen, var í sak­leysi sínu á göngu á þriðju­dag þegar hún fann fyrir skyndi­legum sárs­auka í öðrum fót­leggnum. Það er ó­hætt að segja að henni hafi brugðið í brún þegar hún leit niður og sá söku­dólginn.

Í sam­tali við Afton­bladet segir Jenni­fer að í fyrstu hafi hún talið að trjá­grein eða slíkt hefði rekist í hana. Þegar hún leit niður sá hún hins vegar að rotta var búin að læsa tönnunum í fót­leggnum. Jenni­fer segist hafa öskrað og reynt að hrista fót­legginn en án árangurs. Hún á­ætlar að rottan hafi hangið á henni í um sjö sekúndur, en þegar hún sleppti takinu tók Jenni­fer til fótanna.

Eins og heil eilífð

„Þetta var eins og heil ei­lífð,“ segir Jenni­fer en þegar hún leit aftur fyrir sig sá hún að rottan hljóp á eftir henni. Að lokum gafst rottan upp og hljóp inn í runna skammt frá.

Jenni­fer á­ætlar að rottan hafi verið 25 til 30 sentí­metrar, sum­sé nokkuð pattara­leg. Hún slapp sem betur fer með skrámur en eðli málsins sam­kvæmt var henni mjög brugðið og hélt móðir hennar að hún hefði verið rænd, slík var geðs­hræringin þegar þær töluðust við í síma.

Mjög sjaldgæft

Jenni­fer fékk sprautu gegn stíf­krampa og þá voru for­eldrar hennar hvattir til að hreinsa sárið vel og fylgjast vel með dóttur sinni.

Í frétt Afton­bladet er rætt við Thomas West­man, sér­fræðing hjá Anticimex, sem segir að til­vik sem þessi séu mjög sjald­gæf. Al­mennt hagi rottur sér ekki svona og þær haldi sig frekar til hlés.

Undir þetta tekur Frauke Ecke, að­stoðar­prófessor við land­búnaðar­há­skólann í Umeå. Hún varpar þó fram þeirri kenningu að þessi til­tekna rotta hafi hugsan­lega verið sýkt af sníkju­dýri sem kallast bog­frymill, eða toxop­lasma.

Til séu dæmi um að rottur hafi farið að haga sér undar­lega og orðið á­rásar­gjarnar eftir að hafa sýkst af um­ræddu sníkju­dýri. Frauke í­trekar þó að þetta sé að­eins kenning.

Það sá á Jennifer eftir að rottan stökk á hana og læsti tönnunum í henni.
Mynd: Úr einkasafni/Aftonbladet