Plast­poki, nammi­bréf og djúp­sjávar­dýr eru meðal þess sem auðjöfurinn og ævintýramaðurinn Victor Vescovo fann er hann kannaði botn Maríanadjúp­álsins í sér­út­búnum kaf­báti. Vescovo sló þar með met en enginn hefur áður fyrr farið jafn djúpt.

Sjávar­dýpið er mest í Maríanadjúp­álnum í Kyrra­hafi, nærri eyjunni Gvam. Um er að ræða þriðja skiptið sem menn hætta sér svo djúpt en þangað þarf að ferðast í sér­út­búnum djúpsjávarkaf­báti sem byggður er til að standast gífur­legan þrýsting sem eykst eftir því sem dýpra er kafað.

Fyrsta skiptið var árið 1960 þegar Banda­ríkja­maðurinn Don Walsh og Sviss­lendingurinn Jacqu­es Pic­card fóru 10.916 metra niður í Maríana-djúpsjávarrennuna. Árið 2012 fór kanadíski leik­stjórinn James Ca­meron á 10.898 metra dýpi. Vescovo slær hins vegar metið en hann fór 10.927 metra til þess að skoða botninn.

Til stendur að kanna dýrin sem fundust svo djúpt á botni sjávar, á 7 til 8 þúsund metra dýpi nánar til­tekið, og at­huga hvort í þeim sé að finna plastagnir. Ný­legar rann­sóknir benda á að slíkar agnir sé að finna í sjávar­dýrum sem alla jafna lifa nær yfir­borðinu.

Walsh var meðal þeirra fyrstu til að óska Vescovo til hamingju en hann hirti þetta 59 ára met af honum og Pic­card.

DSV Limiting Factor heitir kafbátur Vescovos og er hann 4,6 metrar að lengd og 3,7 metrar á hæð. Um er að ræða hylki með níu sentí­metra þykku títani sem þolir allt að þúsund bör sem er mælieining fyrir þrýsting. Er það líkt og 50 risa­þotum væri raðað ofan á eina mann­eskju.

Umfjöllun BBC um afrek Vescovos.