Rhonda Kampert keypti sér sex bitcoin árið 2013, þegar eitt stykki kostaði um 80 dali, sem er að núvirði um tíu þúsund krónur. Hún eyddi í upphafi nokkru en geymdi afganginn.

Kampert segist í samtali við BBC ekki hafa haft mikið vit á rafmyntum líkt og bitcoin og hún hafi ekki gert sér grein fyrir virði myntarinnar fyrr en hún sá í fréttum árið 2017 hversu mikið virði hennar hefði aukist. Þá kostaði eitt bitcoin næstum 20 þúsund dali.

Kampert ákvað þá að leysa út myntina en lenti í erfiðleikum með að skrá sig inn, hún hafði tapað hluta af lykilorðinu. Hún reyndi eins og hún gat að ná fénu út og það hafðist á endanum með hjálp hakkara.

Þegar Kampert loks náði út fénu hafði virði þess aukist 600-falt, og átti hún nú 175 þúsund dala virði af bitcoin eða rúmar 22,5 milljónir íslenskra króna. Féð geymir Kampert nú á lokuðum reikningi fyrir utan 10 þúsund dali sem hún setti í menntun dóttur sinnar ásamt því að greiða hökkurunum fyrir sína vinnu.