Birna Dröfn Jónasdóttir
Laugardagur 28. janúar 2023
14.38 GMT

Það eru tíu síðan ég kom hingað fyrst og vann í minni fyrstu sýningu á Íslandi. Fyrir mér eru þetta merk tímamót af því ég elska að vera hér,“ segir danshöfundurinn og leikstjórinn Lee Proud.

Hann fæddist í Newcastle á Englandi en býr í London og er með annan fótinn á Íslandi. Lee fékk snemma áhuga á dansi og byrjaði ungur í dansskóla, hann segir það ekki hafa verið hefðbundið áhugamál fyrir strák í Newcastle á þeim tíma.

„Ég hafði alltaf haft svo gaman af því að syngja og svo fljótlega þróaðist það í dans. Mig langaði að læra að dansa þegar ég var níu ára en það var ekki hefðbundið fyrir strák úr verkamannastétt í Newcastle fyrir rúmum 40 árum,“ segir Lee.

„En ég fékk að gera það og mamma mín og pabbi fóru með mig í dansskólann á hverjum laugardegi. Skilyrðið var að tvíburasystir mín átti að vera með mér, dansskólinn var ódýrari en barnapía og mamma og pabbi gátu útréttað á meðan við vorum þarna. En þetta var smá eins og ég væri Billy Elliot,“ segir Lee.


Mig langaði að læra að dansa þegar ég var níu ára en það var ekki hefðbundið fyrir strák úr verkamannastétt í Newcastle fyrir rúmum 40 árum


Flutti ungur til London

Þegar Lee var aðeins þrettán ára gamall flutti hann til London og fór í skóla þar. Í skólanum lærði hann hefðbundin fög en einnig söng og dans. „Við byrjuðum alltaf daginn í landafræði, stærðfræði, ensku og þessu hefðbundna en svo seinnipartinn lærðum við raddtækni, ballett, djassballett og hvers kyns söng og dans,“ segir hann.

Spurður hvort ekki hafi tekið á að flytja svo ungur að heiman segist hann haf gleymt sér í söng og dansi. „Ég var svo þakklátur fyrir að vera kominn þangað, ég naut þess að syngja og dansa,“ segir Lee en hann hlaut styrk til að nema við skólann þar sem skólagjöldin voru há. „Þetta var bara eins og í Billy Elliot, ég var eins og hann. Ljómaði allur þegar ég var loksins kominn þarna og var að upplifa drauminn,“ segir Lee.

:Lee Proud flutti fyrst til Íslands fyrir tíu árum. Hann hafði þá búið lengi í London og fannst þögnin í Reykjavík yfirþyrmandi. Nú elskar hann þögnina, land og þjóð.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hann var aðeins þrettán ára þegar hann tók þátt í sinni fyrstu stóru sýningu, Bugsy Malone á West End í London, en með honum í sýningunni lék meðal annars Catherine Zeta-Jones. Síðan þá hefur Lee komið fram og unnið í óteljandi sýningum um allan heim.

Á menntaskólaárunum tók hann sér pásu frá dansinum í örskamma stund og var í hljómsveitinni The Proud Ones. „Þetta var skemmtilegt og okkur gekk vel. Við komum meira að segja lagi í þriðja sæti á breska kántrílistanum og fórum í tónleikaferðalag með David Bowie, svo einhvern veginn flosnaði þessi hljómsveit upp og við fórum að gera eitthvað annað,“ segir Lee og ekki er að greina vott af hroka í röddinni þrátt fyrir velgengnina.

Góðan daginn

Spurður að því hvernig það hafi komið til að Lee kom til Íslands segir hann það skondna sögu. „Ég hafði verið að sjá um sviðshreyfingar og dans í mörgum, mörgum sýningum í Bretlandi og mér hafði gengið mjög vel. Voru boðin fleiri og fleiri verkefni og hafði unnið til verðlauna og það var farið að spyrjast út,“ segir hann.

„Svo kom það upp að íslenskur leikstjóri spyr leikstjóra sem ég var að vinna með hvort hann gæti mælt með einhverjum fyrir sýningu á Íslandi og hann sagði honum frá mér, íslenska leikstjóranum leist vel á og ég fékk að vita að hann myndi hringja í mig eftir nokkra daga,“ segir Lee sem ákvað að nýta þessa daga til að læra að segja góðan daginn á íslensku.

„Svo tek ég fundinn á Skype heima hjá mér og heilsa leikhússtjóranum með góðan daginn og braut þannig ísinn, honum fannst það svo fyndið og með þessu góðan daginn hef ég fengið fullt af verkefnum og alls konar öðru hér á Íslandi,“ segir Lee og hlær.


Svo tek ég fundinn á Skype heima hjá mér og heilsa leikhússtjóranum með góðan daginn og braut þannig ísinn, honum fannst það svo fyndið.


Lee Proud hefur tekið þátt í uppsetningu meirihluta stórra sviðsverka sem sett hafa verið upp á Íslandi síðasta áratuginn. Hann hefur meðal annars séð um dans og sviðshreyfingar í Mary Poppins, Billy Elliot, Mamma Mia!, Rocky Horror, Matthildi, 9 lífum og Emil í Kattholti í Borgarleikhúsinu og í Kabarett, Vorið vaknar og Benedikt búálfi hjá Leikfélagi Akureyrar. Hann hefur verið listrænn stjórnandi og danshöfundur Söngvakeppninnar hjá RÚV frá árinu 2019 og samdi meðal annars dansinn sem Daði og gagnamagnið dansa við lagið Think about things. Lee vinnur núna að uppsetningu Chicago á Akureyri og Draumaþjófinum í Þjóðleikhúsinu. Þá hefur hann fengið fjölda tilnefninga til Grímuverðlaunanna og hlaut hann slík verðlaun fyrir Matthildi.

Lee á æfingu á sýningunni Draumaþjófurinn í Þjóðleikhúsinu.
Mynd/Aðsend

Fann ástina

En það er ekki einungis ferill Lee sem hefur blómstrað á Íslandi, því hér fann hann ástina. „Ég sat eitt kvöldi með Páli Óskari á Ölstofunni og þar sé ég á barnum fallegasta mann sem ég hef á ævi minni séð. Þar sem við vorum á Íslandi þekkti Palli hann auðvitað og í ljós kom að hann hafði séð sýningarnar mínar og vissi hver ég var,“ segir Lee og ljómar þegar hann segir blaðamanni frá því þegar hann sá unnusta sinn Ahd Tamimi í fyrsta sinn.

Þetta kvöld urðu þeir vinir á Facebook og spjölluðu mikið saman, Ahd er leikari og stuttu seinna fékk hann hlutverk í sýningu sem Lee vann einnig í, Vorið vaknar. „Þá urðum við enn betri vinir og unnum saman á Akureyri. Svo er ég alltaf að tala um hann og eitt kvöldið í desember er ég að tala við vin minn, ætti kannski ekki að „namedroppa“ en Elton John og maðurinn hans, David, eru góðir vinir mínir,“ segir Lee auðmjúkur.

Ahd og Lee hafa verið saman síðan árið 2018 og hyggja nú á brúðkaup.
Mynd/Aðsend

„David segir við mig að ég verði bara að eiga almennileg og einlæg samskipti við Ahd og ég tek það til mín. Þetta kvöld, föstudaginn 13. desember árið 2019, spyr ég hann bara beint út hvort að við ættum að verða kærastar og hann segir já,“ rifjar Lee upp.

„Þetta var stórkostlegt og daginn eftir vöknum við og hann segir: „Góðan daginn, kærasti,“ og mér leið svo vel,“ segir Lee og gleðin leynir sér ekki þegar hann talar um Ahd sem hann trúlofaðist um áramótin.

„Ég bað hann að giftast mér á gamlárskvöld í Kaupmannahöfn. Ég var búinn að fylla svalirnar á íbúðinni sem við vorum í af kertum og ég bað hans þar rétt fyrir miðnætti. Ég fór niður á hnén og bað hans, allir vinir okkar sem voru í partíi hjá okkur fylgdust með út um gluggann og svo um leið og hann sagði já byrjuðu flugeldarnir. Þetta var ótrúlegt augnablik.“


Svo um leið og hann sagði já byrjuðu flugeldarnir. Þetta var ótrúlegt augnablik.


Það er margt fram undan hjá Lee sem er bókaður út allt árið 2024. Hann vinnur að uppsetningu Sister Act í Danmörku og eins og komið hefur fram vinnur hann að Draumaþjófnum í Þjóðleikhúsinu og Chicago. Svo er hann á leið til Japan þar sem hann mun leikstýra verki í hinu víðfræga leikhúsi Takarazuka Revue, leikhúsi þar sem konur fara með öll hlutverk.

„Næst á dagskrá er frumsýning á Chicago og svo þurfum við að finna tíma fyrir brúðkaup,“ segir Lee .

Athugasemdir