Maður á fertugsaldri sem fann ávísun frá matvælakeðjunni REWE til þýska sælgætisframleiðandans Haribo upp á tæplega 700 milljónir króna var ósáttur eftir að Haribo sendi honum sex poka af gúmmíi fyrir að tilkynna fundinn.

Maðurinn ræddi atvikið í samtali við Bild í Þýskalandi en þegar hann var á lestarstöð í Frankfurt kom hann auga á ávísun.

Þegar hann fór að skoða ávísunina nánar sá hann að að hún hljómaði upp á 4,63 milljónir evra eða tæplega sjö hundruð milljónir íslenskra króna.

Eftir að hafa eytt ávísuninni að beiðni lögmanns Haribo fékk hann sent þakkarbréf og sex poka af Haribo-gúmmíi.

„Mér fannst þetta ekkert sérstök þakklætisverðlaun,“ sagði maðurinn í samtali við Bild en Haribo sagði þetta staðlað þakkarbréf frá fyrirtækinu.