Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Gabríel Douane Boama, 20 ára, en hann strauk úr Héraðsdómi Reykjavíkur um sjöleytið í kvöld þegar mál hans var þar til meðferðar.

Gabríel er 192 sm á hæð, með brún augu og um 85 kg að þyngd. Hann er klæddur í hvíta hettupeysu, gallabuxur og hvíta skó. Þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Gabríels eða vita hvar hann er niðurkominn er vinsamlegast beðin um að hafa tafarlaust samband við lögreglu í síma 112. Gabríel er hvattur til að gefa sig strax fram.

Töluverður fjöldi lögreglumanna var í dómhúsinu þar sem aðalmeðferð sakamáls gegn fimm sakborningum fór fram. Þá var sérsveitarbíll fyrir utan dómshúsið, auk nokkurra lögreglubifhjóla.

Þrátt fyrir að dómshúsið hafi þannig verið nokkuð þétt skipað lögreglumönnum, komst fanginn undan og er hans enn leitað.

Bæði sérsveitarbíll og nokkur mótorhjól lögreglu voru fyrir framan dómhúsið í dag.
Fréttablaðið/Aðalheiður
Minnst tveir sérsveitarbílar komu til skiptis í héraðsdóm í dag og bifhjólin voru ýmist tvö eða fjögur.
Fréttablaðið/Lovísa

Fréttin hefur verið uppfærð.