Yfirvöld í Singapúr hafa tekið af lífi 34 ára Malasíumann, Nagaenthran K. Dharmalingam, sem setið hafði á dauðadeild frá árinu 2010. Hann var sakfelldur fyrir að smygla 42 grömmum af heróíni til landsins.
Mannréttindasamtök víða um heim, meðal annars Amnesty International, höfðu kallað eftir því að lífi Dharmalingam yrði þyrmt en hann var með þroskaskerðingu og greindarvísitölu upp á 69, að því er fram kemur í frétt AP. Þá var því haldið fram að hann hafi verið þvingaður til að smygla efnunum til landsins.
Ströng fíkniefnalöggjöf er í gildi í Singapúr og kveður hún á um dauðarefsingu yfir þeim sem gerast sekir um fíkniefnasmygl.
Aðstandendur Dharmalingam staðfestu við fjölmiðla í morgun að dauðadómnum hefði verið framfylgt. Systir hans, Sarmila Dharmalingam, sagði augljóst að mannréttindi væru fótum troðin í Singapúr og Malasía stæði mun betur að vígi þó pottur væri víða brotinn þar.
Aðstandendur Dharmalingam segja að lík hans verði flutt heim til Malasíu þar sem útför fer fram.