Yfir­völd í Singa­púr hafa tekið af lífi 34 ára Malasíu­mann, Nagaent­hran K. Dharma­lingam, sem setið hafði á dauða­deild frá árinu 2010. Hann var sak­felldur fyrir að smygla 42 grömmum af heróíni til landsins.

Mann­réttinda­sam­tök víða um heim, meðal annars Am­ne­sty International, höfðu kallað eftir því að lífi Dharma­lingam yrði þyrmt en hann var með þroska­skerðingu og greindar­vísi­tölu upp á 69, að því er fram kemur í frétt AP. Þá var því haldið fram að hann hafi verið þvingaður til að smygla efnunum til landsins.

Ströng fíkni­efna­lög­gjöf er í gildi í Singa­púr og kveður hún á um dauða­refsingu yfir þeim sem gerast sekir um fíkni­efna­smygl.

Að­stand­endur Dharma­lingam stað­festu við fjöl­miðla í morgun að dauða­dómnum hefði verið fram­fylgt. Systir hans, Sar­mila Dharma­lingam, sagði aug­ljóst að mann­réttindi væru fótum troðin í Singa­púr og Malasía stæði mun betur að vígi þó pottur væri víða brotinn þar.

Að­stand­endur Dharma­lingam segja að lík hans verði flutt heim til Malasíu þar sem út­för fer fram.