Afplánunarfangi í fangelsinu á Hólms­heiði var fluttur á Land­spítalann í byrjun mánaðarins og liggur þar þungt haldinn. Aðstandendur mannsins telja hann ekki hafa fengið læknishjálp eins fljótt og hann þurfti á að halda. Formaður félags fanga vill að málið verði rannsakað.

„Já, með mikilli sorg get ég staðfest að það liggur einstaklingur sem afplánar dóm á gjörgæsludeild. Hann hefur verið í öndunarvél í á aðra viku og ástandið er alvarlegt,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga.

Hann hefur verið í öndunarvél í á aðra viku og ástandið er alvarlegt.

Guðmundur segist ekki geta tjáð sig um hvað nákvæmlega gerðist en að fanginn hafi veikst mikið stuttu eftir að hann kom í fangelsið. Ekki mun þó vera um COVID-19 að ræða.

„Það er alveg ljóst í mínum huga að rannsókn verður að fara fram og við reyndar báðum Fangelsismálastofnun um það strax daginn eftir að þetta mál kom upp,“ segir Guðmundur og bætir við: „Aðstandendur mannsins telja að ekki hafi verið brugðist við með réttum hætti.“

Fékk ekki umbeðna læknishjálp

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var ekki kallað á lækni fyrir fangann, þrátt fyrir að hann hafi ítrekað óskað eftir því. Fangaverðir hafi talið hann í fráhvörfum og hvatt hann til að fá sér ferskt loft. Á þriðja degi veikindana hafi þó verið hringt á sjúkrabíl fyrir fangann og hann hefur legið á gjörgæsludeild Landspítalans síðan þar sem honum var haldið sofandi þangað til í gær. Ástand hans er enn mjög alvarlegt.

Páll Winkel fangelsis­mála­stjóri sagðist ekki geta tjáð sig um mál­efni ein­stakra fanga þegar Frétta­blaðið hafði sam­band, en sagði hins vegar að Fangelsis­mála­stofnun færi alltaf yfir verk­ferla þegar upp kæmu al­var­leg mál og kannaði hvort bregðast þyrfti við.

Al­mennt mikil við­vera í fangelsinu á Hólms­heiði

Heilsu­gæsla höfuð­borgar­svæðisins sér um heil­brigðis­þjónustu í fangelsinu á Hólms­heiði. Sig­ríður Dóra Magnús­dóttir, fram­kvæmda­stjóri lækninga hjá Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, segir að al­mennt séð er mikil við­vera hjúkrunar­fræðinga í fangelsinu. Hún þekkti þó ekki til þessa máls.

„Það eru hjúkrunar­fræðingar með við­veru upp á Hólms­heiði sem hafa bak­land af læknum sem sinna fangelsunum. Það eru líka læknar sem fara þangað eftir þörfum og hægt er að kalla til. Þess þjónusta er í boði alla daga,“ segir Sig­ríður.