Réttarhöld standa nú yfir fyrrverandi fangelsisstjóra Dublin-kvennafangelsisins í Kaliforníufylki Bandaríkjanna, en hann er grunaður um að halda úti svokölluðu „nauðgunarfélagi“ (e. rape club). Hann er einn af fimm starfsmönnum stofnunarinnar sem er grunaður um aðild að málinu.

Honum er gefið að sök að hafa misnotað fanga, til að mynda með því að neyða þá til að afklæðast í klefunum sínum og taka myndir af þeim.LA Times fjallar um málið.

Fyrrverandi fangelsisstjórinn, Ray J. Garcia, settist í helgan stein í kjölfar þess að Bandaríska alríkislögreglan fann nektarmyndir af föngum í síma hans.

Réttarhöldin hófust í Oakland á mánudag. Þar kynnti saksóknarinn sönnunargögn málsins og sagði þau benda til óviðeigandi hegðunar Garcia, sem hafi í byrjun hrósað og daðrað við fanga, en það hafi síðan breyst í kynferðislegar athafnir.

Garcia gæti átt yfir höfði sér fimmtán ára fangelsisdóm, en hann neitar sök. Hann er ákærður fyrir brot gegn þremur konum frá því í desember, en fram kemur að allt að sex konur gætu borið vitni í málinu og sagt frá því að hann hafi káfað á þeim og látið þær afklæðast.