Tíu lýð­ræðis­sinnar sem tóku þátt í mót­mælum í Hong Kong árið 2019 voru dæmdir í fangelsi í dag en fangelsis­dómarnir voru frá fjór­tán mánuðum upp í á­tján mánuði, að því er kemur fram í frétt New York Times.

Hin dæmdu játuðu öll í síðasta mánuði að hafa skipu­lagt mót­mælin sem áttu sér stað þann 1. októ­ber, á þjóð­há­tíðar­degi Kína. Meðal þeirra sem hlutu fangelsis­dóm í dag var fjöl­miðla­jöfurinn Jimmy Lai, sem er þegar í fangelsi vegna dóms sem hann hlaut í síðasta mánuði.

Lai mun nú þurfa að af­plána 20 mánuði í fangelsi en hann á einnig yfir höfði sér að minnsta kosti tvær aðrar á­kærur vegna brota á nýjum öryggis­lögum sem tóku gildi í Hong Kong í fyrra. Refsingin fyrir brot á lögunum felur í sér allt að lífs­tíðar­fangelsi.

Þá voru verka­lýðs­leið­toginn Lee Cheuk-yan og aktív­istinn Leung Kwok-hung, betur þekktur sem „Long Hair,“ einnig meðal þeirra sem hlutu dóm í dag. Tveir dómar sem féllu í dag voru skil­orðs­bundnir til tveggja ára, dómar stjórn­mála­mannanna Sin Ching-kai og Richard Tsoi.

Fleiri en 10.200 manns hafa verið hand­teknir í tengslum við mót­mæli lýð­ræðis­sinna í Hong Kong síðustu ár en sam­kvæmt upp­lýsingum dóms­mála­ráðu­neytis Hong Kong hafa 2500 verið á­kærðir og 600 dæmdir vegna mót­mæla.

Þá hafa ríf­lega 100 manns verið hand­tekin eftir að nýju öryggis­lögin tóku gildi og 57 á­kærðir.