Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í fimmtán mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem átti sér stað í Reykjanesbæ þann 11. september 2018.
Maðurinn var ákærður fyrir að veitast að öðrum manni með hníf og stinga hann í vinstri upphandlegg og tvívegis í lær. Árásin átti sér stað inni í bifreið en auk þess var maðurinn ákærður fyrir að hóta fórnarlambi sínu lífláti ef hann leitaði til lögreglu.
Maðurinn játaði sök fyrir dómi en hann hefur nokkrum sinnum komist í kast við lögin, meðal annars vegna umferðarlagabrota og brota gegn fíkniefnalögum.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að árásin var sérstaklega háskaleg en einnig til þess að maðurinn hafi gert verulega breytingu á högum sínum eftir atvikið fyrir tæpum fjórum árum. Fimmtán mánaða fangelsi var niðurstaðan og eru tólf mánuðir skilorðsbundnir.
Þar að auki var manninum gert að greiða fórnarlambi sínu 600 þúsund krónur í bætur.