Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú skemmdarverk á Hellu þar sem allir regnbogafánar bæjarins voru skornir niður í skjóli nætur aðfaranótt síðastliðins mánudags.

Elín Jóhannsdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir ekki aðeins fána hafa verið skorna niður á Hellu heldur hafi fleiri eignaspjöll verið unnin sem eru einnig til skoðunar. Lögreglan vinni nú út frá því að um skemmdarverk sé að ræða en ekki hatursglæp.

Elín vildi ekki gefa upp hvort lögreglan hefði náð tali af sökudólgnum en sagði að miðað við þær upplýsingar sem lægu fyrir í málinu teldi lögreglan að um eignaspjöll væri að ræða. Hún segir lögregluna þó að sjálfsögðu skoða alla fleti vegna málsins.

Ummælin vakið athygli

Fréttablaðið greindi frá málinu í gær og sögðu oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra og staðgengill sveitarstjóra málið hið leiðinlegasta. Lögreglan sagði verknaðinn ekki hatursglæp heldur skemmdarverk sem tengdist fánunum ekki sem slíkum og hafa ummælin vakið talsverð viðbrögð fólks á samfélagsmiðlum.

Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, segir eingöngu hægt að fullyrða um að ekki sé um hatursglæp að ræða ef lögreglan hefur náð tali af þeim sem framdi verknaðinn og hafi undir höndum upplýsingar sem sýni fram á að enginn ásetningur liggi þar að baki.

Uppskrift af hatursglæp

„Ef lögreglan veit til dæmis ekki hver gerði þetta þá geta þau ekki fullyrt þetta. Þetta getur verið mjög týpísk birtingarmynd af hatursglæp,“ segir Eyrún og bætir við að þetta sé skemmdarverk og ef ásetningurinn er í raun og veru neikvætt viðhorf til hinsegin samfélagsins sé það í raun bara uppskriftin af hatursglæp.

Eyrún segir klárt mál að ef aðilinn sem skar á alla regnbogafána bæjarins er með neikvæð viðhorf eða í nöp við hinsegin samfélagið, er á móti einhverjum innan þess eða öllum hópnum í heild sinni og framkvæmdi skemmdarverkin vegna þessara fordóma sé þetta hatursglæpur. „Það er alveg kristaltært.“

Ummæli lögreglunnar í samtali við Fréttablaðið í gær vöktu talsverða athygli á samfélagsmiðlum en margir töldu ummælin til marks um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks.