Fámennt var á ríkisstjórnarfundi í dag en alls voru fimm af tólf ráðherrum fjarverandi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarsson umhverfisráðherra eru báðir erlendis á skíðum. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra er erlendis og herma heimildir Fréttablaðsins að hann sé á Tenerife.

Þá var Lilja Alfreðsdóttir, Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, einnig fjarverandi, en móðir hennar er borin til grafar í dag. Innanríkisráðherra, Jón Gunnarsson, var einnig fjarverandi, en ekki fengust upplýsingar um hvað kom í veg fyrir að hann kæmist á ríkisstjórnarfund.

Á fundinum fór forsætisráðherra yfir stöðuna á COVID-19 í nágrannaríkjunum og ræddi um eftirfylgni yfirlýsinga ríkisstjórnar vegna lífskjarasamnings. Einnig var rætt um bólusetningarvottorð og framkvæmd á landamærum Íslands.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra, hljóp í skarð fjármálaráðherra og kynnti fyrir stjórninni frumvarp hans um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldursins. Í því frumvarpi er kveðið á um framhald lokunarstyrkja.

Þá kynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson frumvarp um breytingu lögum um málefni innflytjenda en í frumvarpinu er fjallað um móttöku einstaklinga með vernd og innflytjendaráð.