Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar segir að þrátt fyrir að fólk sé ef til vill meðvitaðra um það að verið sé að nýta persónuupplýsingar um það til að sníða að þeim efni, þá geri það sér ekki endilega grein fyrir því þegar það lesi fréttir sem eru falsar og jafnvel dreifir þeim líka. 

Elfa flytur erindi seinni partinn í dag um samspil falsfrétta, samfélagsmiðla og gervigreindar og áhrif þess á lýðræðið í bókasafni Garðarbæjar. Hún segir að niðurstöður nýrrar rannsóknar sem gerð var á dreifingu rangra og mis­vísandi upp­lýs­inga á sam­fé­lags­miðlum sýna að staðleysur, eða svokallaðar falsfréttir, dreifast sex sinnum hraðar, fara víðar og hafa meiri áhrif á samfélagsmiðlum en fréttir sem standast faglegar kröfur. 

Þar segir enn fremur að ekki skipti hvaða flokk frétta er litið til. Falsfréttir dreifast hraðar en staðreyndir. Sem dæmi má þar nefna fréttir af viðskiptum, hryðjuverkum, stríði og afþreyingu. Falsfréttir um stjórnmál dreifast þó best, samkvæmt rannsókninni.

Elfa segir í samtali við Fréttablaðið í dag það áhugavert sem gerðist nýverið í kjölfar máls Cambridge Analytica. Þar kom í ljós að upplýsingar notenda Facebook voru notaðar í kosningaherferð í Bandaríkjunum til að aðstoða Donald Trump að ná kjöri. Elfa telur að málið hafi gert það að verkum að sjónum almennings sé í ríkara mæli beint að því hvernig þeim upplýsingum sem safnað er um þau á samfélagsmiðlum séu notaðar.

Sjá einnig: Cambridge Analytica lokar því kúnnarnir eru farnir

„Fólk kannski hefur alltaf vitað að það sé verið að nota upplýsingar um það, en vissi kannski ekki að hvaða marki og hvernig þær hafa verið notaðar. Þetta mál gerði það að verkum að almenningur er orðinn meðvitaðri um persónuupplýsingar og hvað samfélagsmiðlanir geta gert með þetta allt saman,“ segir Elfa Ýr.

Hún segir stóran hluta fólks fá sínar fréttir frá samfélagsmiðlum og því hafi hlutverk fjölmiðla að einhverju leyti breyst samhliða því.

„Stór hluti af fólki fær sínar fréttir frá samfélagsmiðlum eins og Facebook og Twitter þannig fólk er kannski orðin líka meðvitaðra að þetta eru stórir aðilar sem með sínum algoritma eru að velja það sem við sjáum og það sem kjósum að tjá okkur um. Þar er aðallega snertiflöturinn við fjölmiðlanefnd, því okkur er ætlað að gæta að tjáningarfrelsinu og rétti fólks til upplýsinga. En núna eru þessi stórfyrirtæki orðnir þessi hliðarverðir [e. Gate keepers] sem fjölmiðlarnir voru áður“ segir Elfa.

Hún segir að í sögulegu samhengi hafi fjölmiðlar ávallt verið þessir hliðarverðir og hafi þannig sett mál á dagskrá í samfélaginu

„Fjölmiðlar voru þessir hliðarverðir og settu mál á dagskrá. Þannig voru þau hliðarverðir um hvað var rætt og á hvaða nótum var verið að ræða hlutina. En sífellt stærra hlutfall fólks fer ekki inn á fjölmiðilinn sjálfan, það er á síður þeirra. Þessi stórfyrirtæki skoða hvað fólk er búið að „læka“ og sér þannig áhugasvið fólks og beinir svo að þeim fréttum eftir því. Þá í raun velja þau hvað þú sérð og hvað þú ert að tjá þig um,“ segir Elfa.

Dreifing falsfrétta miklu meiri 

Elfa segir að þó fólk sé orðið meðvitaðra um að verið sé að nota upplýsingar um þær á þennan máta þá sé það ekki endilega eins meðvitað um það hvort fréttirnar sem það les og deilir séu falsfréttir eða ekki

„Við erum trúgjörn sem einstaklingar. Það er erfitt að vera gagnrýninn á allt sem við sjáum og það er auðvelt að misnota þetta. Við sjáum það í falsfréttunum og hvað dreifing þeirra er miklu meiri en sannleikurinn. Við sem manneskjur eru miklu hrifnari af einhverjum æsingi og einhverju sem við trúum varla heldur en hinu. Í mörgum tilvikum þá gerir fólk sér ekki grein fyrir því að um sé að ræða efni sem er sérstaklega beint að þeim út frá þeirra persónuleikaprófíl sem staðfestir þeirra heimsýn, sem er auðvitað tilgangurinn.“

Það sem hættulegt er við þetta er að þegar efni er sérsniðið að fólki með þessum hætti, hættir lýðræðisumræðan að vera opin. „Fólk byggir afstöðu sína í auknum mæli á upp­lýs­ingum sem beint er að því. Hætta er á því að við­horf manna til mál­efna fari að byggj­ast á til­finn­inga­legri afstöðu fremur en stað­reynd­um. Auð­velt er að koma á fram­færi mis­mun­andi skila­boðum til ólíkra hópa, skila­boðum sem ekki er víst að séu rétt eða byggð á stað­reynd­um. Vera kann að aðferðir sem not­aðar eru í kosn­inga­bar­áttu verði ekki kunnar fyrr en að loknum kosn­ing­um,“ segir Elfa í grein sem hún ritar um sama efni á Kjarnanum og birtist þar 5. apríl síðastliðinn.

Elfa telur ólíklegt að þetta muni breytast heldur þvert á móti verði sótt enn harðar að notendum. Hún bendir í því samhengi á nýja þjónustu sem Facebook opnaði nýverið fyrir sem kallast FB Learner Flow.

„Þau eru með svo mikið af notendum að þau geta séð hvernig notendur haga sér áður en þau skipta um skoðun eða ákveða til dæmis að fara frá einu „brandi“ yfir í annað. Þau geta séð hvernig fólk hagar sér áður en það gerir það þannig ef það er einhver sem gerir eins þá geta þau herjað á fólk með auglýsingum, áður en það skiptir um skoðun. Þetta er veruleikinn sem við erum komin inn í í dag og maður þarf eflaust að hafa sig allan við til að fylgjast með. Það getur hver sem er nýtt sér þessa þjónustu, það er fyrirtæki, stofnanir eða jafnvel stjórnmálaflokkar.“

Ný persónuverndarreglugerð mun breyta miklu

Elfa segir að miðað við hraða þróun í tækni þá sé ekki hægt að bregðast við öllu strax en það sé mikil umræða í gang um þetta.

„Nýja persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins mun breyta mjög miklu um upplýst samþykki og fólk geti leitað upplýsinga um það hvernig það er verið að nota persónuupplýsingarnar þeirra og að það sé ekki hægt að nota þær í hvað sem er. Þar af leiðandi held ég að það muni draga til tíðinda. Það er erfitt fyrir hvert og eitt ríki að gera eitthvað og þess vegna skiptir persónuverndarreglugerðin svo miklu máli. Evrópa er risastór markaður með mörgum milljónum manna og þau fyrirtæki sem vilja vera starfandi á þessum markaði verða að aðlaga sig að því og bregðast við. Evrópusambandið er búið að vinna mjög mikið að falsfréttarmálum og eru að móta sér stefnu. Þau gáfu út skýrslu í mars þar sem þau segja að þau sjái fyrir sér að það þarf að eiga við þetta með því, til dæmis, að styrkja fjölmiðla og fjölmiðlalæsi.“

Rannsóknin sem Elfa vitnar í var gerð af vís­inda­mönnum við MIT háskólann í Bandaríkjunum og birtist í mars á þessu ári í fræðitímaritinu Science. Í rannsókninni voru skoðaðar fréttir á ensku sem dreift hafði verið á samfélagsmiðlinum Twitter á tíu ára tímabili. Það voru 126 þúsund fréttir sem miðlað var af þremur millj­ónum not­enda. Rannsóknin sýndi að notendur Twitter voru 70 prósent líklegri til að dreifa falsfréttum frekar en réttum upplýsingum. Niðurstöður þóttu gefa til kynna að gera mætti ráð fyrir að umfangið væri svipað á öðrum samfélagsmiðlum eins og Facebook og Twitter.

Viðburðurinn sem verður klukkan 17.30 í bókasafni Garðarbæjar er aðgengilegur hér.