„Gos­mökkurinn frá Fagra­dals­fjalli er einkar fal­legur á þessum kyrr­láta haust­morgni,“ segir í færslu Eld­fjalla- og náttúru­vá­r­hóps Suður­lands á Face­book. Í færslunni er út­skýrt nokkra mis­munandi hluta gos­makkarins.

Logn var við gos­stöðvarnar í nótt og morgun og mökkurinn fékk því að rísa nokkuð upp í and­rúms­loftið áður en hann beygði undan vindi.

Þegar horft er á mökkinn frá höfuð­borgar­svæðinu má greina nokkra mis­munandi hluta hans.

„Neðst er enginn mökkur sýni­legur, en þar eru gas­tegundirnar að koma fun­heitar upp áður en þær blandast köldu and­rúms­loftinu, þéttast og verða sýni­legar,“ segir í færslunni.

Í út­skýringar­mynd sem birtist með færslunni má sjá að upp­streymi gas­tegunda var frá tveimur stöðum. „Ör 1 vísar til upp­streymis beint frá gos­stöðvunum, en ör 2 sýnir hvar mikill hiti er að rísa upp yfir nýju hraun­breiðunni í Mera­dölum og ský myndast þar yfir.“

Úrskýringarmynd frá Eldfjalla- og náttúruvárhóp Suðurlands.
Mynd/Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands

Þá segir hópurinn að upp­streymið frá hraun­breiðunni sé veikara en yfir gos­stöðvunum. „Því rís skýið þar mun lægra en það frá gos­stöðvunum. Hluti upp­streymisins frá hrauninu togast hins vegar inn í kröftugt upp­streymið frá gos­stöðvunum.“

Upp að punkta­línunni má sjá tölu­verða gasmengun í and­rúms­loftinu, og segir í færslunni að það sé lík­lega mest brenni­steins­díoxíð sem sveimi þar um í loftinu. „Mökkurinn hefur ekki orku í að bera mengunina hærra og í svona kyrr­látu veðri dreifist hún til hliðar þegar á­kveðnu "þaki" í and­rúms­loftinu er náð,“ segir í færslunni.

„Við þau skil er þyngd sumra gas­tegunda í jafn­vægi við þyngd and­rúms­loftsins um­hverfis gas­mökkinn. Gösin komast því ekki hærra og að­skiljast frá mekkinum. Hæðin á þessum skilum stýrist af mestu af krafti eld­gossins.“

Fyrir ofan punkta­línuna á myndinni virðist mökkurinn vera orðinn nokkuð hrein og hvít vatns­gufa. „Gos­mökkur sem þessi er að megninu til vatns­gufa, en vatnið er jafn­framt lang­öflugasti drif­kraftur eld­gosa, þar sem rúm­mál vatns eykst gríðar­lega við suðu­mark,“ segir enn fremur í færslunni.

Sjá má færsluna í heild sinni hér að neðan: