Ytra sögusviðið er Austur- Berlín á kaldastríðsárunum sem höfundurinn notar síðan til að skoða manneskjuna og löngun hennar og þrá til að elska, treysta og eiga samastað í hjarta annarrar manneskju.
„Að því leyti er sagan tímalaus en svo kallast hún alveg sérstaklega á við þann tíma sem við erum að fara í gegnum núna þar sem mikil höft eru á því að fólk geti ferðast og hist,“ segir María. „Það er líka gott að minna sig á hvað það er stutt síðan að borg í miðri Evrópu var innimúruð og undir alræðisstjórn og hversu brothætt lýðræðið er eins og við sáum í Bandaríkjunum fyrir ári síðan.“
María segist aldrei hafa tekið sér pásu frá leiklistinni á fjörutíu ára ferli.
„En ég hef unnið sjálfstætt nær allan minn ferill sem þýðir að ég er ýmist að þróa og framleiða verk sjálf eða er ráðin inn í verkefni hjá öðrum í leikhúsi, sjónvarpi og bíó. Ég valdi líka að vera leikari, leikstjóri og höfundur og ekkert ár er því eins, stundum meira af einu og minna af öðru. Og á meðan eitthvað er í þróun þá getur auðvitað liðið tími á milli þess sem ég stend á leiksviðinu.“

Þrátt fyrir langan feril tekur María nú í fyrsta sinn þátt í einleik og viðurkennir að fyrir fram hafi hún óttast að æfingaferlið yrði einmanalegt.
„En það hefur síður en svo verið það. Samstarfið við leikstjórann Ólaf Egil hefur verið mjög gefandi. Þá hefur samtalið við Auði Jónsdóttur sem þýddi verkið verið mjög skemmtilegt og við lágum mikið yfir textanum.
Svo hafa þau Filippía Elísdóttir, Björn Bergsteinn og Snorri Freyr bæst við síðustu vikur en við höfum unnið saman um árabil. Þau eru ekki bara að hanna búninga, ljós og leikmynd heldur koma þau inn með allan heiminn og sína gríðarlegu reynslu og tilfinningu fyrir leikhúsi.
En auðvitað er það gríðarleg áskorun að standa svo á endanum ein á sviðinu en þá eru mótleikararnir mínir ljósin og tónlistin sem Ólafur Björn Ólafsson semur.“

María segir að þar sem um einleik sé að ræða sem kalli á nánd hafi ætlunin alltaf verið að bjóða takmarkaðan sætafjölda. Sóttvörnum og fjöldatakmörkunum sé þó fylgt í hvívetna.
„Okkur fannst líka þetta fallega verk vera gjöf inn í þennan dimma tíma,“ segir hún að lokum.