Katla Ísaksdóttir hefur vegna veikinda þurft að leita sér aðstoðar á geðdeild Landspítalans. Hún hefur verið nauðungarvistuð á bráðageðdeild tvisvar sinnum, en í báðum tilfellum var nauðungarvistun aflétt. Neyðarteymi Landspítalans hefur verið kallað til auk þess sem hún hefur farið á geðdeildina í lögreglufylgd.

Líkt og hjá mörgum sem glíma við andleg veikindi hafa komið upp ýmsar sjúkdómsgreiningar en Katla segist sjálf líta svo á að um geðhvörf sé að ræða og sé núverandi geðlæknir hennar á sömu skoðun.

„Ég hafði verið að glíma við vanlíðan og tilfinningasveiflur, kvíða og þunglyndi frá unglingsaldri. Ég var svo sem aldrei viss hvort þetta væri þunglyndi eða bara almennt vonleysisástand. Ég tengdi það aðallega við alkóhólisma í fjölskyldunni og var um tíma í tólf spora starfi því tengdu. Ég var búin að tala við hina og þessa sálfræðinga og það er eitt af því sem mér finnst gagnrýnisvert í kerfinu, að enginn af þeim sá ástæðu til að taka á áföllum í fortíð og andlegu ofbeldi,“ segir Katla og bætir við:

„Ég held að áfallasaga sé oftar en ekki kjarni málsins þegar kemur að geðsjúkdómum. Það hefði kannski ekki þurft að koma til alls þess sem kom fyrir ef það hefði verið tekið á minni áfallasögu,“ segir Katla.

Sjúkdómssaga sem einkennist af andlegum upplifunum

Hún leitaði fyrst til geðlæknis þegar hún nálgaðist þrítugt og var búin að eignast barn. Hún segir að hún hafi þá verið komin með ríkari ábyrgðartilfinningu og viljað taka sig á í lífinu. Þá bjó Katla í Kanada með fjölskyldu sinni.

Þar var Katla greind með almenna kvíðaröskun. Hún segir að hún hafi verið fegin að fá greininguna. Það hafi verið gott að fá orðið „kvíða“ í orðaforðann, því það hafi auðveldað samskipti innan hjónabands hennar og gert það að verkum að hún varð meðvitaðri um að hvíla sig og sinna eigin þörfum. Læknirinn skrifaði upp á þunglyndislyf sem hún leysti þó ekki út fyrr en nokkrum mánuðum síðar.

Það var um þetta leyti í lífi Kötlu sem hún fór fyrst að finna sterkt fyrir andlegum upplifunum.

„Það er svo áhugavert. Mín sjúkdómssaga einkennist mikið af andlegum upplifunum. Ég held að fólk sem er með geðhvörf, eins og ég, tengist gjarnan inn á eitthvað andlegt svið. Það upplifir næmni,“ segir Katla.

Katla segist hafa upplifað andlega leiðsögn, meðal annars í draumum. Í nóvember 2013 hafi henni verið leiðbeint í áttina að lyfjunum, sem hún fór þá að sækja í apótekið.

„Ég fór mjög fljótlega að finna fyrir breytingum. Ég fylltist einhverri áður óþekktri orku. Ég átti auðveldara með að horfast í augu við fólk, og fannst ég tengjast fólki sterkar en áður. Það var sérstök orka sem varð til eftir að ég byrjaði á þessum þunglyndislyfjum,“ segir Katla.

Upplifði fyrsta geðrofið

Um það leyti sem lyfin tóku fulla verkan var henni boðið í partí þar sem hún bjó í Kanada. Þar er kannabisneysla mun almennari en hér og í partýinu tók hún nokkra smóka af marijúana sem leiddu hana í geðrof.

„Ég er ekki vön að djamma mikið, en fór í þetta partý, og tók svo nokkra smóka af marijúana og fór í rosalega vímu. Sem entist í þrjá daga og myndi væntanlega vera kölluð geðrof,“ segir Katla.

Í þessu ástandi komst Katla í hugsanatengsl við íslenskan miðil sem hún þekkir. Hún varð mjög upprifin af nýjum andlegum hæfileikum sínum en miðillinn reyndi að róa hana og bað Guð að leiðbeina þeim. Katla fann þá að miðillinn, sem var kominn á efri ár, var hætt kominn og staddur í sjúkrarúmi. Hún hafi þá aðstoðað miðilinn við að skilja við og yfirgefa þennan heim.

Katla segir sjálf að í kjölfarið hafi hún hagað sér mjög skringilega. Á endanum hafi maðurinn hennar verið orðinn svo áhyggjufullur að hann ákvað að hringja á sjúkrabíl. Þá var Katla lögð inn á geðdeild í fyrsta skipti. 

Hún segir að hennar fyrsta skipti á geðdeild, í Kanada, hafi hún upplifað jákvætt. Henni hafi mætt skilningur og læknirinn verið vinsamlegur og hlustað á það sem hún hafði að segja. Hún segir að við innlagnir á Íslandi hafi hún mætt öðru viðmóti þegar hún hafi hagað sér með svipuðum hætti og hún gerði í Kanada. Hér á Íslandi hafi verið kallað til neyðarteymi, henni verið haldið niðri og hún sprautuð með róandi lyfjum og geðlyfjum gegn vilja sínum.

„Ég hef þessa reynslu og get borið hana saman við þau tilfelli sem ég hef lent í hérna á Íslandi sem ég veit að hefðu ekki þurft að gerast. Það er hægt að vera mildur og mjúkur og setja sig í spor fólks og hugsa hvað fólk þarf. En þetta er allt öðruvísi hér,“ segir Katla. Hún tekur fram að vissulega séu margir starfsmenn Landspítalans almennilegir, en við ákveðnar kringumstæður sé verklagi þeirra mjög ábótavant.

Eftir að Katla er útskrifuð í Kanada kemst hún að því að miðillinn sem hún hafði tengst í geðrofinu hafi farið í hjartastopp en svo komist aftur til lífs. Eftir það var Katla handviss um að upplifanir hennar hafi verið eitthvað meira en ranghugmyndir eða einfaldlega birtingarmynd sjúkdóms. 

„Þetta gerðist í alvörunni og þannig var byrjunin á þessu öllu saman,“ segir Katla.

Hálfu ári seinna, sumarið 2014, fara Katla og fjölskylda hennar til Íslands og Katla hittir þennan miðil nokkrum sinnum. Hún segir að miðillinn hafi að einhverju leyti verið að þjálfa hana sem miðil en segir að í síðasta skipti sem þau hittast segi hann að henni sé ætlað að fara á geðlyf um tíma.

Hjálpaði að leita til Guðs

Katla segir að á þessum tíma hafi ekkert bent til þess að hún væri veik. En þó, stuttu síðar, fari aftur af stað „eitthvað ástand“ eins og Katla lýsir því sjálf, sem endaði með öðru geðrofi. Katla segir að hún hafi þá verið búin að læra af fyrri reynslu. Hún hafi beitt ýmsum aðferðum til að aðstoða sjálfa sig í geðrofinu. Eins og öndun, að sortera hugsanir sínar og að beina orku sinni í farveg þar sem hún gæti gert gagn.

„Ég held að heilbrigðiskerfið eða læknar átti sig ekki á þessum möguleika að við getum lært af reynslunni að vinna með aðstæður okkar,“ segir Katla.

Hún segir að fólk bregðist auðvitað ólíkt við slíkum aðstæðum, en fyrir hana hafi virkað að leita í trúna og til Guðs. Guð hafi sagt henni að það yrði allt í lagi með hana og að hún ætti að fara upp á geðdeild, sem hún gerði. Katla dvaldi í um tvær vikur á geðdeild og fann með hjálp læknis lyf sem virkuðu vel á hana og hún hefur notað í mismiklu magni síðan þá.

Hún segir að geðrofin séu að einhverju leyti áhugaverð fyrir hana. Hún hafi blessunarlega aldrei lent í mikilli paranoju, sem margir glími við, heldur hafi að miklu leyti hallað sér að Guði og að margt gott hafi gerst í kjölfarið á því.

Opnaðist nýr heimur samhliða andlegum upplifunum 

Katla hélt á þessum tíma áfram að kynna sér andlegar upplifanir sínar. Hún segir að fyrir henni hafi opnast annar heimur sem henni hafi verið raunverulegur og henni fundist spennandi. Hún segir að þetta hafi einnig verið erfitt því maðurinn hennar hafi ekki stutt þessar andlegu leitanir og hann hafi einfaldlega þráð að hún viðurkenndi að hún væri veik.

„Það er svo skrítið að lenda í svona sterkum andlegum upplifunum og maður fær það auðvitað svolítið á heilann. Bæði í minni fjölskyldu og tengdafjölskyldu er fólk sem hefur reynslu af andlegum upplifunum. Það varaði mig við þessu og sagði mér að fara varlega. Ég held það sé mikilvægt að taka það fram. Það getur verið rosalega spennandi, sérstaklega eftir ævi sem veldur vonbrigðum, að allt í einu opnast annar heimur sem er raunverulegur og allt annars eðlis en það sem þú átt að venjast. En það er ekki hollt að fá þetta á heilann þegar maður er ekki jarðtengdur. Það er ekki gott fyrir fjölskyldulífið og maður þarf að fara varlega og ég vona að ég sé búin að læra það núna,“ segir Katla.

Katla segir að í þessu ferli hafi hún áttað sig á að hennar andlegi meistari væri Jesús og farið að iðka kristna trú í meira mæli. Nokkrum mánuðum síðar, í febrúar árið 2016, hafi hún síðan frelsast. Samhliða því fór hún í einhverskonar geðrof, en segir að lítið hafi borið á því, hún hafi tekið aukaskammt af lyfjum og jafnað sig heima hjá sér yfir nótt.

Guð og Jesú koma henni niður á jörðina

Hún segir að hennar samband við Guð og Jesú sé það sem hjálpi henni að vinna úr veikindum sínum og að hefðbundin trúarleg iðkun komi henni niður á jörðina. Hún segir að í hennar tilfelli hafi óhefðbundnar lækningar einnig hjálpað mikið. Hún hafi sem dæmi átt í mjög góðu sambandi við heilara.

„Hún sagði mér að lyf væru af Guði gerð,“ segir Katla.

Katla segir að henni sé mjög annt um að þetta samtal milli hefðbundinna og óhefðbundinna meðferðaraðila opnist. Hún segir að það hafi margt breyst undanfarin ár og telur að aðskilnaður þar á milli sé að minnka. Nefnir sem dæmi að sumir heilarar mæli með lyfjum og að hún þekki fleiri dæmi um það.

„Við þurfum að tala saman og kannski er styttra í að það verði gerðar breytingar en við höldum,“ segir Katla.

„Ég vil að þetta viðtal sé vinsamleg ábending til heilbrigðisstarfsfólks um að við tölum saman. Ég vil líka tala til fólks í svipuðum sporum og ráðleggja þeim að fara varlega og koma niður á jörðina. Það virkar ekki að vera ekki samvinnufús. Þetta er auðvitað svo flókið því manni langar kannski ekkert að vera inni á geðdeild og finnst enginn taka mark á manni. Maður fer í uppnám og það er þá sem allt fer í vitleysu. En auðvitað er eðlilegt, við þessar aðstæður, að fara í uppnám. Þegar það er búið að loka þig einhvers staðar inni þar sem þú vilt ekki vera. Þá er eflaust það eðlilegasta í stöðunni að fara í uppnám,“ segir Katla.

Reynsla af neyðarteymi ekki góð

Hún segir að hennar upplifun af Landspítalanum sé þannig að ef hún hagi sér ekki vel, eða sé þæg, þá sé hún sprautuð niður. Sumarið eftir að hún frelsaðist fór hún aftur í geðrof sem endaði með því að hún var lögð inn. Hún segir það skipti hafa einkennst af mistökum og allt ferlið hafi henni þótt leiðinlegt. Þar hafi hjúkrunarfræðingur, eftir að hafa hlustað á sögu hennar, beðið hana að tala við lækni, en án vitundar Kötlu kallað til neyðarteymi.

Þegar hún kemur út tóku á móti henni fjórir karlmenn sem mynduðu neyðarteymið. Það hafi henni þótt óþægilegt. Enginn sagði Kötlu að teymið væri á leiðinni eða hverjir væru í því. Það hafi henni þótt skrítið. Í samhengi við það rifjar hún aftur upp reynsluna í Kanada og hversu ólík hún var.

„Mér finnst svo leiðinlegt að þegar hugur þinn er kominn í eitthvað neyðarástand er það stimplað sem grafalvarlegt ástand og að þér sé ekki viðbjargandi. En þetta er í raun og veru svo eðlilegt. Maður er á viðkvæmum stað sem maður er að reyna að bjarga sér út úr með hugsun,“ segir Katla.

Vistuð á fíknigeðdeild

Þegar Katla var lögð inn í þetta sinn var fullt á spítalanum og hún því vistuð á fíknigeðdeild þar sem ríkja strangari reglur. Aðstandendur mega sem dæmi ekki koma þangað inn. Hún segist hafa verið orðin mjög hrædd, og skildi við manninn sinn, sem kom með henni upp á spítala, í því ástandi.

Hún hafi farið með neyðarteyminu inn og allir fjórir hafi fylgt henni inn á herbergi. Katla segir að á þessum tímapunkti hafi hún einfaldlega „fríkað út“ sem endaði með því að hún var sprautuð niður með valdi.

Daginn eftir lýsti Katla yfir óánægju með þessi vinnubrögð við lækninn sem bað hana afsökunar á því að neyðarteymið hafi verið kallað til. Læknirinn sagði henni að það hefði verið fljótfærni í hjúkrunarfræðingi og að hann hefði sjálfur ekki metið ástand hennar svo að þess þyrfti.

Hefði viljað meiri skilning og samvinnu

Katla segir að við þessa innlögn hefði hún viljað sjá meiri skilning. Eftir á að hyggja hefði hún viljað hafa manninn sinn hjá sér, að einhver hefði talað við hana og útskýrt hvað væri að fara að gerast. Að henni yrðu boðin lyf og sagt að allt yrði í lagi á endanum.

„Þetta sýnir bara að eitthvað eins og neyðarteymið, sem á að hjálpa, það gerir það ekki endilega. Það stoppar bara eitthvað ástand með valdi og er kannski að búa til eitthvað ástand frekar en að koma í veg fyrir það,“ segir Katla. Hún segist hafa verið í áfalli eftir þessa innlögn og þekki þó nokkur dæmi um fólk sem hafi orðið fyrir áföllum inni á geðdeild.

„Ein vinkona mín tók lengi vel sveig fram hjá Landspítalanum frekar en að horfast í augu við bygginguna, og ég þekki líka þessa ónotatilfinningu sem kemur yfir mann þegar maður stendur andspænis þessu húsi.“

Katla ítrekar að hún telji notkun neyðarteymis ekki nauðsynlega í öll þau skipti sem það er notað og segist frekar vilja sjá heilbrigðisstarfsfólk nálgast sjúklinga á þann hátt að reynt sé að afstýra neyðinni með samtali, skilningi og mildi. Katla viðurkennir þó að slík teymi og slíkar aðferðir séu stundum nauðsynlegar og það komi fyrir að engin önnur leið sé til að hjálpa fólki en að halda því. 

„Stundum er það óhjákvæmilegt, en það er bara spurning hvernig er staðið að því. Það verður að passa upp á þetta og athuga hvað raunverulega hjálpar í þessum aðstæðum,“ segir Katla.

Katla segir að það myndi hjálpa henni að fá tækifæri til að gera plan eftir hverja innlögn, skyldi hún þurfa að leggjast inn aftur. Hún læri í hvert skipti af reynslunni og læri betur hvað virkar fyrir hana og hvað hún þarf. Hún sé sérfræðingurinn í sínum sjúkdómi.

Katla segir að öll hennar saga sé í raun eins og þessi. Með öðrum aðferðum hefði verið hægt að koma í veg fyrir nauðung og jafnvel innlögn. Katla segir frá fleiri skiptum síðan þá sem hún hefur lagst inn. Í hvert skipti læri hún betur á sjálfa sig og ferlið. Nefnir sem dæmi að hún hafi lagst inn í janúar árið 2017 og þá farið sjálf, „til að ganga inn í óttann við þennan stað og finna að ég sé ekki algjörlega háð manninum mínum.“

Mikil huggun í Talsmanni notenda

Katla segir að það megi margt bæta á geðdeild og nefnir sem dæmi að þar sé sjaldan útskýrt við upphaf innlagnar hvert markmiðið sé. Þá sé sjúklingum ekki tjáð um réttindi sín og viti því ekki hvenær er brotið á þeim. Hún hafi sem dæmi komist að því fyrir algera tilviljun að á spítalanum starfi Talsmaður notenda.

Það hafi verið henni mikil huggun síðan þá að geta leitað til hans, fengið hann til að vera með sér í viðtölum og almennt að aðstoða hana þegar hún þarf að leggjast inn.

„Ég hef lent í því oftar en einu sinni að það eru einhver smávægileg mistök sem hjúkrunarfræðingar gera. Gleyma hvaða dag maður leggst inn sem dæmi, sem eru fullkomlega eðlileg og mannleg mistök, en geta skipt þig miklu máli sem einstakling,“ segir Katla.

Hún segir að hún hafi lært það af reynslunni að það sé gott fyrir hana að skrifa niður hvenær hún er lögð inn og hvað hún geri á meðan dvöl hennar stendur.

„Það er ekkert endilega gott að setja allt í hendurnar á heilbrigðisstarfsfólki og treysta því fyrir lífi sínu. Það er þó mikilvægt að átta sig á því að þau eru líka bara manneskjur og með góðri samvinnu megi vinna vel með aðstæður,“ segir Katla.

Í lögreglufylgd á bráðageðdeild 

Katla segir að sumarið 2017 hafi verið henni erfitt og hún hafi í kjölfarið farið aftur farið í geðrof sem hafi endað með því að hún fór á bráðageðdeild í lögreglufylgd. Þar var hún beitt nauðung aftur.

„Ég var í manísku ástandi og var í fyrsta skipti lögð inn á bráðageðdeild. Það er allt annar pakki. Þar eru húsgögn skrúfuð niður og í raun gert ráð fyrir því að sjúklingar séu hættulegir,“ segir Katla og veltir því fyrir sér hversu gagnlegt það er og hvaða skilaboð það sendi sjúklingum að þeir séu ógn.

Í þessari innlögn var Katla ósátt við framkomu læknis og komst í uppnám þegar henni var tjáð að henni væri skylt að ræða við viðkomandi lækni. Hún hafi þá verið flutt um herbergi inn á afmarkað svæði og verið læst þar inni. Þetta hafi aðeins aukið á vanlíðan hennar, en þá hafi neyðarteymi verið kallað til og haldið henni niðri, þó svo að hún hafi ekki veitt neina mótstöðu.

„Mér leið eins og ég væri ekki manneskja heldur dýr. Ég var sprautuð, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar, gegn vilja mínum.“

Eftir að hún vaknar degi síðar er henni tilkynnt að hún eigi að hefja lyfjameðferð sem hún sjálf vissi að væri ekki við hæfi. Katla fékk því breytt á endanum, en segir að það sé þó að miklu leyti tengt því að hún sé svo „heppin“ að þekkja réttindi sín. Þegar hún fái slíka framkomu þá viti hún að það sé ekki í lagi og hafi þá samband við Talsmann notenda á spítalanum. Hann hafi á endanum sett hana í samband við Dómsmálaráðuneytið og aðili frá þeim komið skilaboðum frá henni áleiðis til læknis. Hún hafi í kjölfarið verið flutt yfir á opna deild.

„Það fór vel af því að ég gat leitað minna réttinda og þau gátu hjálpað mér,“ segir Katla.

Katla segir að núna skrifi hún alltaf niður það sem hún er ekki sátt við. Hún segir oft um litla praktíska hluti að ræða sem eflaust væri ekki mikið mál að breyta ef viljinn væri fyrir hendi.

„Þetta er svo mikið álag á sjúklinginn. Það er svo vont að koma þarna inn því þarna er ég ekki á góðum stað. Það er búið að beita mig í tvígang nauðung og ég hef ítrekað lent í aðstæðum þar sem ég hef þurft að berjast fyrir réttindum mínum, í mjög viðkvæmu ástandi, því ég er veik,“ segir Katla.

Viðurkenndi veikindin aðeins nýlega

Katla segir að fyrstu árin eftir að hún veiktist hafi hún ekki viljað horfast í augu við veikindi sín og viljað einblína á að um andlega vakningu væri að ræða. Í dag viti hún aftur á móti að fín lína geti verið þar á milli og ekki alltaf um annað hvort eða að ræða.

„Lengi vel vildi ég ekki horfast í augu við það að ég væri veik,“ segir Katla, og bætir við að hún hafi tiltölulega nýlega viðurkennt veikindi sín. Hún hafi um tíma ekki viljað viðurkenna að andlegar upplifanir hennar gætu verið hluti af sjúkdómi hennar og það hafi verið bæði henni og fjölskyldu hennar mjög erfitt.

Hún segir að þegar fólk gangi í gegnum sterkar andlegar upplifanir sé mjög mikilvægt að hafa fólk í sínu stuðningsneti sem skilji og styðji það. Hún hafi ekki fundið þennan skilning hjá sínum nánustu, en fyrir vikið öðlast sterka trú á Guð sem hafi bjargað henni. Áður fyrr hafi hún átt það til að vera gröm út í sína nánustu fyrir að sýna ekki andlegum upplifunum hennar skilning og talið þau hafa haft áhrif á veikindi hennar. En í dag viti hún að það sé ekki góður hugsunarháttur.

Hún segir að hún hafi verið lengi að jafna sig á þessu en í dag sé allt í lagi. Sérstaklega eftir að hún viðurkenndi veikindi sín. Það gerði hún eftir að Guð beindi þeim orðum til hennar að hún væri veik og að hann myndi lækna hana. Hún þyrfti ekki að reiða sig á eiginmann sinn eða móður.

„Það er rosalega falleg auðmýkt falin í því að viðurkenna veikindi sín,“ segir Katla, og bætir við að það hafi mikil heilun átt sér stað í hennar fjölskyldu frá því að hún viðurkenndi veikindin.

Katla segir að það taki tíma að læra hvað virki fyrir sig en það sé fallegt að sjá hvernig maður með tímanum lærir af reynslunni og setji sig í spor sinna nánustu.

Hún vill beina því til aðstandenda fólks sem verði fyrir andlegum upplifunum að vera ekki hrætt.

„En þessi ótti við geðveikina er skiljanlegur og að fólk viti ekki hvernig það eigi að haga sér,“ segir Katla.

„Maður verður að hlusta á sína nánustu og gera sér grein fyrir því hvað þau þjást við það að upplifa þetta. En ég held að svona samtal og að tala opinskátt um þessa hluti hjálpi okkur öllum. Þau vilja alveg þrátt fyrir sínar efasemdir geta sett sig í mín spor. Það er alltaf von og ég held við getum alltaf lært af hvoru öðru,“ segir Katla að lokum.

Segir sögu sína í Geðhjálp 15. janúar

Katla er ein af skipulagsaðilum Emerging Proud á Íslandi. Um er að ræða alþjóðlega vitundarvakningu um andlega vakningu í tengslum við geðrænar áskoranir. Næstkomandi þriðjudag, þann 15. janúar, mun hún segja sögu sína í Geðhjálp, Borgartúni 30, kl. 19:30. 

Með Kötlu verður Ágúst Kristján Steinarrsson, höfundur Riddara Hringavitleysunnar, sem mun gera grein fyrir andlegum þáttum reynslu sinnar af maníu.

Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér á Facebook.

Viðtal við Ágúst Kristján, sem birtist á vef Fréttablaðsins í desember, er hægt að lesa hér að neðan, auk bókarkafla úr bók hans Riddarar hringavitleysunnar. 

Sjá einnig: „Í maníunni er maður hetjan í bíó­myndinni“ og Bókar­kafli: Riddarar hringa­vit­leysunnar