Forsætisnefnd Alþingis hefur fallist á niðurstöðu siðanefndar og hafa því tveir þingmenn Miðflokksins, þeir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, fundist sekir um að hafa brotið siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á Klausturbar þann 20. nóvember 2018.

Málinu lokið með birtingu á heimasíðu þingsins

Nefndin var skipuð þeim Steinunni Þóru Árnadóttur, þingkonu Vinstri grænna, og Haraldi Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins en þau eru 7. Og 8. Varaforsetar þingsins. „Við fórum gaumgæfilega í gegnum áliti siðanefndar og okkar niðurstaða var að fallast á það,“ segir Steinunn í samtali við Fréttablaðið.

Þannig voru hinir fjórir þingmennirnir sem sátu á Klausturbar umrætt kvöld og voru til umfjöllunar hjá nefndinni ekki taldir brjóta siðareglurnar. Málinu er nú lokið innan þingsins en það hefur enga eftirmála í för með sér fyrir þingmenn að brjóta siðareglur. „Niðurstaðan er bara sú að þetta er birt á heimasíðu Alþingis. Þar með er málinu bara lokið,“ segir Steinunn.

Þeir Bergþór og Gunnar Bragi brutu siðareglurnar sem segja að alþingismenn skuli leggja sig fram um að skapa heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hafna hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu. Þá segir einnig að alþingismenn skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess.

Í álitinu segir að ummæli tvímenninganna hafi verið „öll af sömu rótinni sprottin. Þau eru ósæmileg og í þeim felst vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt.“

Er þörf á siðareglum?

Aðspurð segist Steinunn telja það mikilvægt að Alþingi setji sér siðareglur eins og margar aðrar stofnanir og vinnustaðir. „En þær þurfa að vera í stöðugri endurskoðun og í flútti við samfélagið eins og það er hverju sinni,“ segir hún. „En við [forsætisnefndin] störfum náttúrulega eftir gildandi reglum hverju sinni og höfum fylgt þeim siðareglum og málsmeðferðarreglum sem núna eru í gildi.“

Hún segir þá mikla umræðu hafa verið í samfélaginu um það hvernig sé viðurkennt að kjörnir fulltrúar og fólk í valdastöðum almennt tjái sig um bæði einstaklinga og málefni. „Og ég held að Alþingi verði að vera partur af samfélagsumræðunni um það hvað teljist viðeigandi hverju sinni,“ heldur hún áfram. Þannig þurfi samfélagsumræðan að móta siðareglurnar. „Og ég veit að forsætisnefndin er með þessi mál til skoðunar hjá sér.“

En ætti að vera einhver refsing við broti á siðareglum?

„Þetta er gríðarlega erfitt viðfangsefni,“ viðurkennir hún. „Því við erum auðvitað að fjalla um annað hvort samherja okkar í pólitík eða pólitíska andstæðinga og þess vegna held ég að það sé mikilvægt að hafa siðanefnd sem er ekki partur af Alþingi okkur til leiðsagnar í þessu.“

„Ég held að við sem alþingismenn getum ekki verið með einhvers konar refsingar á aðra þingmenn,“ heldur hún áfram. „Það eru auðvitað kjósendur sem svo vega það og meta hvort þeir vilji greiða þingmönnum atkvæði sitt,“ segir hún að lokum.