Minjastofnun Íslands hefur dregið til baka friðlýsingartillögu sína um stækkun friðlýsts svæðis í Víkurgarði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

„Í ljósi þess að fallist hefur verið á sjónar­mið Minja­stofnunar Ís­lands og fyrir liggur yfir­lýsing Lindar­vatns, fram­kvæmda­aðila á Lands­símareitnum í mið­bæ Reykja­víkur, hefur stofnunin nú dregið til baka frið­lýsingar­til­lögu sína um stækkun frið­lýsts svæðis í Víkur­garði,“ segir þar.

Þar með náist þau mark­mið sem lagt var upp með í síðari frið­lýsingar­til­lögu Minja­stofnunar Ís­lands en þau felast meðal annars í því að Víkur­garður „fái þann virðingar­sess sem honum ber sem einn merkasti minja­staður þjóðarinnar, þar verði opið og frjálst al­mennings­rými þar sem saga garðsins fær notið sín og fyrir­komu­lag hans verði fram­vegis óháð starf­semi á nær­liggjandi lóðum“. Þannig er skilið á milli garðsins og hótelsins sem nú er í byggingu á Lands­símareitnum.

Lilja Al­freðs­dóttir, mennta- og menningar­mála­ráð­herra, frið­lýsti Víkur­garð hinn 8. janúar síðast­liðinn en frið­lýsingar­til­lagan sem fallið var frá í dag sneri að stækkun þess svæðis um átta metra til austurs. Svæðið allt er þó aldurs­friðað sam­kvæmt lögum um menningar­minjar frá árinu 2012. Þar má engu raska né breyta nema með leyfi Minja­stofnunar Ís­lands.

Í til­kynningunni segir að for­svars­menn Lindar­vatns hafi fallist á að „að menningar­minjum á svæðinu verði sýnd virðing og sómi“. Fé­lagið hafi lagt fram til­lögu um að færa inn­gang sem fyrir­hugaður var inn í garðinn og flytja hann norðar nær Aðal­stræti. Nýjum inn­gangi verður einnig bætt við á suð­vestur­horni byggingarinnar sem snýr út að Kirkju­stræti enda sam­ræmist slíkt deili­skipu­lagi.

Með þeirri lausn sé tryggt að þegar frið­lýst svæði Víkur­garðs verður ekki fyrir á­lagi vegna starf­semi hótelsins heldur verður gangandi um­ferð hótel­gesta beint um inn­ganga í Kirkju­stræti, Aðal­stræti og Thor­vald­sens­stræti við Austur­völl.

Tilkynning á vef Minjastofnunar.

Fréttin hefur verið uppfærð.