Eftir fall WOW air og Primera Air hefur losun koltvísýrings frá flugsamgöngum dregist saman um 44 prósent. Losunin tekur eingöngu tillit til reksturs íslenskra félaga, en ekki losunar vegna flugferða erlendra flugfélaga sem hafa viðkomu á Íslandi. Þetta kemur fram í bráðabirgðaútreikningum Hagstofu Íslands.

Tölur um losun fyrir árin 2018 og 2019 eru bráðabirgðartölur og gefa vísbendingu um þróun losunar frá hagkerfi Íslands. Tölurnar verða endurskoðaðar þegar nákvæmari gögn liggja fyrir, eða þegar og ef aðferðarfræði verður endurskoðuð.

Primera Air lýsti yfir gjaldþroti árið 2018 og WOW air hætti starfsemi í lok mars árið 2019. Fall flugfélaganna hefur haft neikvæð áhrif á hagvöxt og ferðaiðnaðurinn hefur fundið fyrir áhrifum fallsins. En fátt er svo með öllu illt að ei boði nokkuð gott en svo virðist sem fall flugfélaganna hafi haft einhver jákvæð áhrif á andrúmsloftið ef marka má tölur Hagstofunnar.

Mynd/Hagstofa Íslands

Stóriðjan enn stærsti skaðvaldurinn

Losun frá iðnaðarferlum nemur um 42 prósentum af þeirri losun sem fellur undir skuldbindingar Kýótó-bókunarinnar og er stærsta einstaka uppsprettan að því er fram kemur í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Að sögn Hagstofu lækkaði losun frá málmframleiðslu um tæp 110 kílótonn CO2 ígilda á milli 2018 og 2019. Þessa lækkun má rekja til minni framleiðslu og bilana í verksmiðjum. Losun CO2 ígilda frá kísilverum jókst hins vegar um nær sama magn á sama tíma.

Losun frá stóriðju fellur ekki undir þær skuldbindingar sem eru á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda samkvæmt Evrópureglum, heldur falla þær undir evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir. Á næstu árum á heildarlosun í viðskiptakerfinu að minnka um 43 prósent til 2030 miðað við 1990. Á komandi árum þarf stóriðjan að greiða fyrir vaxandi hluta heimilda sinna og á það að þrýsta á aðgerðir til að draga úr losun.

Mynd/Hagstofa Íslands