„Fyrir tíu árum hefði ég örugglega tekið þátt í tíu ára áskoruninni. Í dag velti ég því hins vegar fyrir mér hvernig hægt er að nota öll þessi gögn til að þróa hugbúnað til aldursgreiningar og búa reikniforskrift um það hvernig fólk eldist.“

Þetta er lausleg þýðing á Twitter-færslu fyrirlesarans og rithöfundarins Kate O'Neil, sem birtist á Wired.com.

Fjölmargir notendur samfélagsmiðla hafa í vikunni sett saman af sér myndir sem teknar eru með tíu ára tímabili. Þetta er kallað 10-year-challenge, eða 10-ára-áskorunin.

Hún segir að algengustu viðbrögðin við færslunni hennar séu á þá leið að flestar myndirnar séu hvort eð er aðgengilegar, nýja myndin og sú sem er tíu ára gömul. Facebook (til dæmis) hafi þegar aðgang að öllum prófílmyndum fólks.

O'Neil færir hins vegar rök fyrir því að áskorun sem þessi myndi nýtast fyrirtæki fullkomlega sem væri að þróa reikniforskrift (algorithm) fyrir einkenni öldrunar. Með áskoruninni fái fyrirtækin tímasettar myndir sem notendur staðfesta að séu teknar með tíu ára millibili. Þau gögn séu alla jafna ekki aðgengileg, enda séu venjulegar prófílmyndir samblanda af alls kyns myndum héðan og þaðan; nýjar eða gamlar, af dýrum, börnum eða hverju sem er. Slík gagnasafn sé mjög „óhreint“.

Með því að setja saman þessar myndir sé verið að gefa fyrirtækjum sem vinna með svona gögn stoðsendingu. Fyrir tilstilli áskorunarinnar hafi fyrirtækin nú skotheldan gagnagrunn, staðfestan af fólkinu sjálfu, af myndum sem eru teknar með 10 ára millibili.

Og hvers vegna er slæmt að Facebook eða önnur fyrirtæki geti þróað hugbúnað sem segir til um það hvernig fólk lítur út þegar það eldist? O'Neil segir að það þurfi ekki sjálfkrafa að vera vondar fréttir. Dæmi séu um að slík forrit séu notuð til að finna börn sem hafa horfið. Lögreglan á Indlandi hafi til að mynda fundið 3000 týnd börn í landinu í fyrra, með slíkri tækni.

Hún bendir hins vegar á að ýmis fyrirtæki geti haft mikinn hag af því að greina aldur fólks; til að geta beint auglýsingum að réttum markhópi. Öllu verri afleiðingar geti það haft fyrir fólk ef háþróuð tækni sem greinir einkenni öldrunar yrðu aðgengilegar tryggingafélögum. „Sem dæmi, ef þú virðist vera að eldast hraðar en þinn aldurshópur, ertu ef til vill ekki vænlegur viðskiptavinur. Þú gætir þurft að borga meira eða að þér verði synjað um tryggingu,“ skrifar hún.

Hún bendir á að Amazon hafi byrjað að þróa forrit til aldursgreiningar árið 2016 og í kjölfarið hafi fyrirtækið selt þjónustuna til lögreglu og ríkisstofnana. Það bjóði þeirri hættu heim að stjórnvöld noti upplýsingarnar ekki aðeins til að leita að glæpamönnum, heldur einnig bera kennsl á fólk sem mótmælir, svo dæmi sé tekið.

O'Neil segir að það sé örugglega ekki hættulegt að taka þátt í leik sem þessum. „Við ættum hins vegar að krefjast þess að fyrirtæki umgangist persónuupplýsingar um okkur af virðingu. Að sama skapi þurfum við sjálf að umgangast okkar eigin persónuupplýsingar af virðingu.“