Dómsmálaráðherra hefur sett Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra, til að taka afstöðu til þess hvort hefja beri lögreglurannsókn á grundvelli nýrra ábendinga um afdrif Guðmundar- og Geirfinns Einarssona. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Samkvæmt sakamálalögum getur ríkissaksóknari kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál. Málið er á borði ríkissaksóknara en Sigríður Friðjónsdóttir tilkynnti dómsmálaráðherra um vanhæfi sitt til að fara með málið í bréfi til dómsmálaráðherra 12. desember síðastliðinn. Var Halla Bergþóra settur ríkissaksóknari í stað Sigríðar 22. mars.

Þegar Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari í endurupptökumáli þeirra fimm sem sýknaðir voru af aðild að málinu síðastliðið haust, skilaði vinnu sinni til ríkissaksóknara vakti hann við það tækifæri sérstaka athygli á ábendingum um afdrif mannanna tveggja sem komið hafa fram á undanförnum árum. Þar á meðal var ábending um afdrif Guðmundar sem leiddi til handtöku tveggja manna árið 2015. Einnig voru teknar skýrslur af tveimur vitnum árið 2016 vegna meintra atvika í Vestmannaeyjum dagana í kringum hvarf Geirfinns árið 1974.

Fréttablaðið greindi frá því í haust að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lægi undir feldi vegna málsins og hefði hug á að hefja rannsókn að nýju en biði formlegrar afstöðu ríkissaksóknara. Embættið hefur aðeins forræði á máli Guðmundar en hvarf Geirfinns heyrir hins vegar undir lögregluna á Suðurnesjum.