Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í níu mánaða fangelsi vegna innflutnings á 497 OxyContin töflur frá Varsjá í Póllandi til Keflavíkurflugvallar sunnudaginn 6. nóvember síðastliðinn.

Maðurinn kom til Íslands með farþegaflugi frá Varsjá og hafði hann falið töflurnar innanklæða í fatnaði sem hann klæddist við komuna til landsins.

Töflurnar voru með hæsta styrkleika, 80 milligrömm, og ætlaðar til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Maðurinn játaði sök fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Í gögnum málsins kemur fram að á árinu 2018 hafi alls 39 lyfjatengd dauðsföll verið á Íslandi, þar af 23 dauðsföll vegna ópíóða.

Tvær til þrjár töflur af 80 milligramma OxyContin geti verið banvænar. „Hjá óreyndum neytendum sem mylji töflurnar, eða einstaklingum sem séu undir áhrifum annarra slævandi efna, geti jafnvel ein tafla verið lífshættuleg.“

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi ekki sakaferil hér á landi og að það hafi verið horft til þess við ákvörðun refsingar.

Hann var sem fyrr segir dæmdur í níu mánaða fangelsi auk þess að greiða rúma eina milljón í sakarkostnað.