Fjórði dagur aðalmeðferðar í Rauðagerðismálinu fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur og er nú sjónum beint að vitnum sem voru með skotmanninum í aðdraganda morðsins.

Angjelin Sterka­j hefur játað að hafa skotið Armando Beqirai fyrir utan heimili hans í Rauðagerði þann 13. febrúar síðastliðinn. Segist hann hafa gert það í sjálfsvörn og ekki ætlað sér að drepa hann. Hin sem eru á­kærð eru Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, unnusta Angjelin, auk Murat Seli­vrada og Shpetim Qerimi.

Í dag voru meðal annarra þrír menn leiddir í vitnastúkuna, þeir Yuri, Eduardo og Romas, en þeir voru allir í sömu snjósleðaferð á Norðurlandi með Angjelin sem Anton Kristinn Þórarinsson er sagður hafa skipulagt. Voru þeir með Angjelin í bílferðinni suður til Reykjavíkur daginn sem Angjelin skaut Armando.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá segir Angjelin málið hafa byrjað þegar Armando kom til sín vegna ágreinings við Anton Kristin um 50 milljón króna sekt sem átti að hafa verið lögð á Anton. Armando og félagi hans hafi beðið Angjelin um að taka börnin hans „Tona“ af honum en Angjelin hafi neitað og Armando þá hótað honum og syni hans lífláti að sögn Angjelin. Þess vegna hafi hann gripið til þess ráðs að kaupa byssu.

Anton bar sjálfur vitni í gær og sagði að hann hefði reynt að tala Angjelin af því að myrða Armando hefði hann vitað nokkuð um á­form hans. Hann sagðist ekki hafa vitað að Angjelin ætti byssu og að meint 50 milljón króna sekt hafi verið orðrómur. Þá vildu vinir Armando ekki kannast við það að nein sekt hafi verið lögð á Anton.

Keyrði í Grímsnes nóttina eftir morðið

Yuri, sem er rússneskur, segist hafa komið til Íslands til að stunda viðskipti. Hann hafi ætlað að fara í gufubaðs-verkefni með Antoni Kristni, sem bauð honum til landsins. Hópur hafi farið saman norður í snjósleðaferðina á fimmtudeginum en hann hafi svo keyrt suður á laugardeginum ásamt Angjelin, Eduardo og Romas en það kvöld skaut Angjelin Armando til bana Í Rauðagerði.

Aðspurður um ferðina norður sagði Yuri: „Ég man að það var virkilega gaman í ferðalaginu. Vorum bara heilan dag að skemmta okkur á snjósleðum. Toni planaði ferðina en hann sagði fyrir löngu að ef ég kæmi til landsins þá myndum við að fara,“ sagði Yuri.

Eftir að mennirnir fjórir komu í bæinn fóru Yuri og Eduardo saman á Mathús að drekka. Romas var þá skilin eftir heima. Sömu nótt, eftir að Armando var myrtur, fór Yuri á Grímsnes. Aðspurður hvers vegna hann hafi farið úr bænum þessa nótt sagði Yuri: „Þegar okkur langar að drekka áfram förum við alltaf þangað.“

Sagðist hann ekki hafa heyrt af morðinu fyrr en daginn eftir í fréttum snemma morguns. Hann hafi ekki áttað sig á því að málið tengdist Angjelin og ekki vitað að Angjelin ætti byssu. Yuri sagði í dómsalnum að hann ætti erfitt með að rifja upp atburðina. „Mig langar ekki að rifja upp hlutina sem eru búnir að skemma fjölskyldulífið mitt og samskipti mín við kærustuna,“ sagði hann.

„Eitthvað í gangi í Reykjavík“

Spænskur maður að nafni Eduardo var einnig í bílnum og í snjósleðaferðinni. Hann sagðist einnig hafa verið á Íslandi í viðskiptatilgangi í tengslum við að opna sauna-stað. Segir hann verkefnið hafa verið á vegum Yuri en sjálfur hafi hann ekki þekkt Anton vel en hann hafi gist í íbúðinni hans meðan hann var á Íslandi.

Eduardo segist hafa verið viðstaddur fund þar verið var að ræða um málefni Angjelin. Á fundinum voru Anton, Yuri, Romas og Eduardo. „Svo kom einhver annar sem ég held að hafi verið Armando. Angjelin var að skapa eitthvað vesen og blanda Toni í málið ... Ég er ekki viss hver Armando er. Það var svona þéttbyggður maður með gleraugu sem kom.“

Sagðist hann aðallega tengjast Angjelin í gegnum snjósleðaferðina. Aðspurður sagði hann Angjelin hafa hagað sér einkennilega í ferðinni. „Við fórum þarna norður þetta var svolítið skrýtin ferð. Angjelin hagaði sér einkennilega. Við fórum saman norður og svo fór hann suður. Svo kom hann aftur norður og sagði að hann þurfi að fara aftur suður.“

Eduardo segist hafa gist í íbúð í eigu Pálma sem hann þekkti í gegnum Anton en Pálmi átti bústað í Varmahlíð. Hann hafi síðar frétt frá honum eftir morðið að eitthvað væri í gangi í Reykjavík og að Romas hefði verið handtekinn. Pálmi og Yuri hafi farið til að sækja Anton og var Eduardo eftir í íbúðinni hjá Pálma þegar Angjelin kom inn. Sagðist hann hafa verið hræddur og ákveðið að fela sig í herbergi í íbúðinni. „Ég var hræddur við hann, ég vildi ekki að hann sæi mig.“

Kolbrún Benediksdóttir saksóknari spurði hvort hann hafi grunað Angjelin strax morguninn eftir. „Já. Bæði var það rökrétt niðurstaða og líka bara með útilokunaraðferðinni,“ sagði Eduardo en hann lýsti því þannig að um leið og hann hafi séð Angjelin á sunnudeginum hafi allt smollið saman.

Keyrðu suður á bílaleigubíl

Romas, sem er litháenskur, segir þetta hafa verið fyrstu ferð sína til Íslands en hann hafi komið til að vinna. Aðspurður um snjósleðaferðina norður sagði hann:

„Við vorum bara að skemmta okkur á snjósleða, hafa gaman,“ sagði hann. Á leiðinni suður var hann ökumaðurinn á bíl sem þeir fengu á bílaleigu. Hann sagðist lítið muna um deilur milli Armando og Angjelin.

Þeir hafi komið í bæinn á laugardeginum og var Romas handtekinn á sunnudeginum. Romas virtist eiga erfitt með að muna mikið frá ferðinni og ítrekaði að hann hefði bara komið til landsins til að vinna. Verjandi Angjelin spurði Romas hvort hann hefði séð Angjelin með tösku. Hann svaraði játandi og sagði töskuna hafa verið svarta með merki Versace. Mundi hann það því það var uppáhalds merkið hans.

Verjandi Angjelin spurði þá hvort Romas hafi vitað hvað væri í töskunni, og þá hvort það hafi verið byssa í henni. Svaraði Romas; „Veist þú hvað ég er með í vasanum?“

Fréttin hefur verið uppfærð.