Landsréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem eftirlýstur erlendis fyrir tilraun til manndráps.
Maðurinn var dæmdur í fangelsi 11 ár og 6 mánuði fyrir tilraun til manndráps fyrir að hafa, í félagi við annan mann, ráðist að brotaþola með hnefahöggum og spörkum og slegið hann með kylfu, glerflösku og sveðju árið 2011.
Maðurinn er erlendur ríkisborgari og sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi en Útlendingastofnun synjaði honum um efnislega meðferð í nóvember í fyrra. Kærunefnd Útlendingamála staðfesti úrskurðinn en samkvæmt gögnum málsins fór maðurinn huldu höfði frá þeim tíma.
„Í kjölfar evrópskrar handtökuskipunar, ítarlegrar rannsóknar og leitar sóknaraðila var varnaraðili handtekinn 10. mars 2023 en í ljós kom að hann hafði um nokkurra vikna skeið unnið hjá nánar greindu fyrirtæki undir nafni annars manns,“ segir í úrskurði Landsréttar.
Maðurinn talinn hættulegur almenningi
Í úrskurði Héraðsdóms segir að lögreglan á Suðurnesjum leitaði að manninum frá 31. janúar án árangurs með það að markmiði að flytja hann úr landi.
„Varnaraðili var í felum fyrir lögreglu en eftir umtalsverðar aðgerðir lögreglu til að hafa uppi á varnaraðila í þágu málsins var hann handtekinn kl. 13:59 föstudaginn 10. mars 2023,“ segir í úrskurðinum.
„Í greinargerð með kröfu lögreglustjóra er hún í meginatriðum rökstudd svo: Lögreglustjóri telur hættu á því að varnaraðili, sem er [...] ríkisborgari með takmörkuð tengsl við Ísland, kunni að reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsmeðferð og fullnustu refsingar, verði honum ekki gert að sæta þvingunarráðstöfunum á meðan meðferð málsins stendur yfir. Varnaraðili hefur með háttsemi sinni sýnt að vægari úrræði eru ekki tæk, en hann hefur vísvitandi leynst og komið sér undan lögreglu. Þurfti á endanum miklar aðgerðir lögreglu í nokkra daga til að hafa uppi á honum og handtaka hann í þágu málsins. Þá er varnaraðili talinn hættulegur, en hann hefur hlotið þungan fangelsisdóm á [...]fyrir mjög alvarlegt brot,“ segir úrskurði Héraðsdóms Reykjaness.
Sem fyrr segir staðfesti Landsréttur úrskurð Héraðsdóms og mun maðurinn sæta gæsluvarðhaldi til 7. apríl.