Maður að nafni Peter Hartl­ey hefur verið hand­tekinn eftir að upp komst að hann hafði sett falda mynda­vél inn á kvenna­klósettið í kvik­mynda­verinu Pinewood í London í Bret­landi, þar sem tökur standa nú yfir á nýjustu myndinni um James Bond. Þetta kemur fram á vef Guar­dian.

Ekki er ljóst hvort að maðurinn sé tengdur kvik­mynda­verinu eða nýjustu myndinni um njósnara hennar há­tignar. Í til­kynningu frá lög­reglunni kemur fram að maðurinn sé enn í haldi lög­reglu vegna málsins og að það sé litið al­var­legum augum. Svipuð til­kynning kom frá kvik­mynda­verinu sjálfu og segir að farið verði yfir öryggis­mál í verinu í kjöl­farið.

Nokkuð brösug­lega hefur gengið að klára tökur á um­ræddri kvik­mynd sem enn hefur ekki fengið nafn en aðal­leikari myndarinnar, Daniel Cra­ig, meiddi sig á ökkla við tökur í maí síðast­liðnum og þá meiddist starfs­maður við tökur eftir mann­gerða sprengingu fyrr í þessum mánuði.

Rami Malek fer með hlut­verk erki­ó­vinar Bond í þessari mynd en ráð­gert er að myndin komi í kvik­mynda­hús í apríl næst­komandi.