Per­sónu­vernd komst að því að raf­ræn vöktun í fjöl­eignar­húsi var ekki heimil en mynda­vélum, sem hafði verið stillt upp í glugga eig­anda, var beint að bæði sam­eign og sér­eign sumra íbúa. Kvartandi kvartaði einnig yfir því að efnið sem tekið var upp var birt á YouTu­be og komst Per­sónu­vernd að því að ekki hefði verið heimild til að birta efnið þar og var manninum sem tók upp efnið gert að eyða því af YouTu­be fyrir 20. desember. Úr­skurðurinn var kveðinn upp þann 17. sama mánaða en að­eins birtur í gær á vef Per­sónu­verndar.

Í úr­skurðinum kemur fram að maðurinn hafi hafið upp­töku árið 2015 vegna meintrar ó­lög­legrar heimagistingar sem hann taldi að væri rekin í hús­næðinu af fyrri eig­endum. En segir að eftir ein­hvern tíma hafi honum þótt þægi­legt að sjá hverjir væru fyrir utan húsið því hann eigi erfitt með gang og sé oft seinn til dyranna. Þá lýsti hann því að kvartandi væri með ó­lög­lega út­leigu á geymslu og bíl­skúr og að á hennar vegum sé „skríll“ sem reglu­lega reyki kanna­bis fyrir utan úti­hurð og eld­hús­glugga hans.

Hann taldi að konan sem kvartaði hafi vitað af eftir­lits­mynda­vélunum og að vaktaða svæðið hafi verið vel merkt. Hann bar fyrir sig að vöktunin hafi ekki verið tekin fyrir á form­legum hús­fundi því slíkur fundur hafi ekki verið haldinn frá 2014. Hann neitaði því að hafa birt efni á Face­book en stað­festi að það hafi birst á YouTu­be, þar á meðal mynd­band af mönnum að reykja við húsið.

Myndavélar faldar í skrauti í glugga

Í máli konunnar kom fram að mynda­vélarnar hafi ekki verið settar upp með sam­þykkt íbúa og að enginn hafi vitað af þeim. Þær hafi meðal annars verið faldar í skrauti í gluggum hans og að hún hafi ekki orðið þeirra vör fyrr en um ári eftir að hún flutti inn árið 2017.

Hún vísaði á bug full­yrðingum hans um kanna­bis­reykingar og sagði ó­á­sættan­legt að mynda­vélarnar væru stað­settar þarna í ó­þökk íbúa.

Þá verði ekki séð hvaða hag hann hafi, þrátt fyrir sjúk­dóm sinn, af því að fylgjast með manna­ferðum framan við húsið, þar sem inn­gangur að íbúð hans sé á húsinu aftan­verðu.

Úr­skurðinn er hægt að kynna sér hér.